Handbolti

Gamli Framarinn skít­hræddur að jöfnunar­markið yrði dæmt af

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vilhelm Poulsen skoraði fjögur mörk gegn Sviss.
Vilhelm Poulsen skoraði fjögur mörk gegn Sviss. epa/Cornelius Poppe

Vilhelm Poulsen, fyrrverandi leikmaður Fram, var hetja Færeyja gegn Sviss á Evrópumótinu í handbolta í gær. Hann skoraði jöfnunarmark Færeyinga undir blálokin en var smeykur um að það yrði dæmt af.

Mikið gekk á undir lok leiks Færeyja og Sviss í Bærum í Noregi í gær. Þeir fjölmörgu Færeyingar sem voru á leiknum voru eflaust orðnir ansi svartsýnir þegar Svisslendingar voru með boltann undir lokin og marki yfir, 28-27.

En Pauli Jacobsen varði skot frá Manuel Zehnder og Færeyjar fengu tækifæri til að jafna. Vilhelm braust í gegnum svissnesku vörnina, skoraði og tryggði Færeyingum sitt fyrsta stig á Evrópumóti í sögunni.

„Það er frábær tilfinning að skora síðasta markið og tryggja jafnteflið,“ sagði Vilhelm eftir leikinn. Dómararnir ákváðu að skoða jöfnunarmarkið á myndbandi og þá voru taugarnar þandar hjá Vilhelm.

„Ég varð svolítið stressaður þegar þeir fóru að skoða myndbandsupptökuna, hvort þeir myndu dæma ruðning eða ekki, en mér fannst það ekki vera ruðningur,“ sagði Vilhelm.

Skyttan örvhenta leikur með Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni en hann kom þangað frá Lemvig í Danmörku. Þar áður lék hann með Fram hér á landi.

Vilhelm lék með Fram um tveggja ára skeið (2020-22).vísir/hulda margrét

Vilhelm kom til Fram ásamt landa sínum, Rógva Dal Christiansen, fyrir tímabilið 2020-21. Þá lék hann tuttugu leiki í Olís-deildinni og skoraði 89 mörk. Tímabilið eftir, 2021-22, var Vilhelm markahæsti leikmaður Fram með 129 mörk í tuttugu deildarleikjum.

Næsti leikur Færeyja er gegn Svartfjallalandi á morgun. Svo gæti farið að Færeyingar myndu lenda í milliriðli með Íslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×