Innlent

Hand­tökur, hús­leit og haldlögð vopn í lög­reglu­að­gerðum á Akur­eyri

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lögreglumenn á Akureyri og víðar í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra sátu ekki auðum höndum um helgina.
Lögreglumenn á Akureyri og víðar í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra sátu ekki auðum höndum um helgina. Vísir/Vilhelm

Sex voru handteknir og hald lagt á umtalsvert magn af fíkniefnum, vopnum og fjármunum í lögregluaðgerðum á Akureyri um helgina. Ráðist var í aðgerðirnar í leit að vopni sem grunur er um að notað hafi verið til að beita hótunum, en ráðist var í húsleit og handtökur á fjórum stöðum og eru tveir enn í varðhaldi. Rannsókn málsins beinist þó einkum að fjórum einstaklingum, þar af tveir undir átján ára aldri, eru til rannsóknar. Þá voru fjórir handteknir í sama lögregluumdæmi í tengslum við innbrot og þjófnað.

Þetta kemur fram í færslu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra á Facebook nú fyrir stundu þar sem greint er frá helstu verkefnum lögreglunnar í umdæminu nú um helgina.

Eggvopn, skotvopn og skotfæri meðal annars haldlögð

Helgin var annasöm að sögn lögreglu en auk hefðbundinna verkefna fór lögregla annars vegar í aðgerðir á Akureyri á laugardagskvöldið, þann 17. janúar, í þeim tilgangi að hafa uppi á skotvopni sem grunur var um að notað hafi verið við hótanir. 

„Húsleitir og handtökur fóru fram á fjórum stöðum. Sex einstaklingar voru handteknir og hald lagt á talsvert magn fíkniefna, fjármuni, eggvopn, skotvopn, skotfæri og meintan ávinning af brotastarfsemi. Rannsókn beinist nú að fjórum sakborningum en þar af eru tveir undir 18 ára aldri. Allir aðilar hafa verið látnir lausir og málið er í rannsókn,“ segir um aðra lögregluaðgerðina í færslunni.

Veistu meira um málið? Þú getur sent okkur fréttaskot hér eða sent okkur upplýsingar eða myndir á ritstjorn@visir.is.



Fjórir handteknir og þýfi endurheimt í öðru máli

Hitt málið sem varðar innbrot og þjófnað kom upp að morgni fimmtudags í síðustu viku þegar tilkynnt var um innbrot í byggingafyrirtæki á Akureyri.

„Að morgni 15. janúar var tilkynnt um innbrot í byggingafyrirtæki á Akureyri. Þaðan hafði verið stolið sérhæfðum tölvubúnaði, lyklum af um tug ökutækja, vinnutækja og ýmsum verðmætum og hófst rannsókn þá þegar á málinu. Að kvöldi 16. janúar voru fjórir einstaklingar handteknir á Akureyri og einn á Raufarhöfn grunaðir um aðild að innbrotinu. Í framhaldi var farið í húsleitir á Raufarhöfn. Með aðgerðunum hafði lögregla uppi á þýfinu og er búið að koma því til skila til réttra eigenda. Rannsókn málsins er langt komin,“ segir um málið í tilkynningu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×