Handbolti

Ís­lendingar sitja fastir í Sví­þjóð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lestarsamgöngur hafa legið niðri víða á Skáni í dag vegna rafmagnsvandræða.
Lestarsamgöngur hafa legið niðri víða á Skáni í dag vegna rafmagnsvandræða.

Fjölmargir Íslendingar áttu og eiga bókaða heimferð frá Kristianstad í dag eftir helgardvöl yfir fyrstu tveimur leikjum liðsins á mótinu. Misvel gekk hjá þeim að ná flugi vegna vandræða á lestarsamgöngum.

Rafmagnstruflanir hafa valdið því að lestarsamgöngur liggja að stórum hluta niðri á Skáni í dag. Rafmagnslína bilaði í Hässleholm og geta engar lestarsamgöngur farið í gegnum þann bæ fyrr en vandamálið er lagað, í fyrsta lagi í fyrramálið samkvæmt frétt SVT. Hässleholm er næsti bær við Kristianstad.

Rútuferðum hefur verið fjölgað á móti og munu þónokkrir Íslendingar taka rútu frá Kristianstad til Kaupmannahafnar áður en þeir fljúga heim í kvöld.

Þeir sem áttu bókað flug frá Kaupmannahöfn í morgun voru ekki allir svo heppnir. Staðarmiðillinn hér í bæ, Kristianstadsbladet, ræðir til að mynda við hinn tvítuga Tryggva sem situr fastur á lestarstöð í bænum og flugvélin farin án hans.

„Þetta er sorglegt, en hvað getur maður gert?“ hefur staðarblaðið eftir Íslendingnum unga sem þarf því að finna sér nýja leið heim á klakann.

Síðasti leikur Íslands í riðlinum er við Ungverja annað kvöld klukkan 19:30. Strákarnir æfa í keppnishöllinni í dag og færa sig eftir leik þriðjudagsins yfir til Malmö þar sem milliriðillinn verður leikinn.


Ertu stuðningsmaður í basli með að komast heim? Eða hefurðu áhugaverða sögu að segja af dvölinni í Svíþjóð? Sendu okkur fréttaskot hérna. Fréttaskot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×