Handbolti

Einar í ræktina en fær ekki að æfa með hópnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Einar Þorsteinn hefur ekki æft með landsliðinu síðan á fimmtudaginn var.
Einar Þorsteinn hefur ekki æft með landsliðinu síðan á fimmtudaginn var. Vísir/Vilhelm

Einar Þorsteinn Ólafsson, leikmaður karlalandsliðsins í handbolta, glímir enn við veikindi og fær ekki að æfa með liðinu enn sem komið er.

Einar hefur nú legið síðan á fimmtudag og verið í einangrun á hóteli landsliðsins síðan þá. Landsliðið æfir í keppnishöllinni í Kristianstad núna klukkan 14:30 að íslenskum tíma en Einar er hvergi sjáanlegur.

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari, staðfesti í samtali við Sýn fyrir æfinguna að Einar myndi ekki æfa í dag. Hann væri þó á batavegi og hafi fengið að fara í ræktarsalinn á hótelinu.

Læknateymi Íslands hafi hins vegar ákveðið að hann fengi ekki að taka þátt í æfingum og umgangast liðið enn um sinn.

Ísland mætir Ungverjalandi í síðasta leik liðsins í riðlinum klukkan 19:30 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×