Handbolti

„Það er mjög slæm minning“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarki Már ætlar sér ekki að tapa í enn eitt skiptið fyrir Ungverjum.
Bjarki Már ætlar sér ekki að tapa í enn eitt skiptið fyrir Ungverjum. vísir/vpe

„Það er góð stemning en það er stutt á milli í þessu. Það er bara einn tapleikur og þá er allt orðið hundleiðinlegt,“ segir Bjarki Már Elísson en hann viðurkennir fúslega að hann sé orðinn þreyttur á að mæta Ungverjum.

„Mjög þreyttur. Sérstaklega af því ég spila í Ungverjalandi og það er þreytt að koma aftur þangað eftir mót með tap á bakinu gegn þeim. Við ætlum að breyta því í ár.“

Klippa: Hefndarhugur í íslenska liðinu

Tapið gegn Ungverjum í Kristianstad  fyrir þremur árum er með þeim grátlegri hjá liðinu síðustu ár. Þá kastaði liðið frá sér unnum leik.

„Það situr ekkert í mér en það er vond minning. Maður verður pirraður er maður hugsar um leikinn því við vorum með tögl og haldir eins og sagt er. Förum svo með þetta í seinni hálfleik og ég persónulega líka því ég klikka í lokin. Það er mjög slæm minning. Handboltinn er bara svona. Það er áfram veginn.“

Einhverjir velta fyrir sér hvort töpin leggist á sál leikmanna liðsins en hvernig sér Bjarki þetta fyrir sér?

„Ég held að sé engin hræðsla. Við höfum tröllatrú á okkur sjálfum. Hefndarhugur kannski að einhverju leyti. Okkur langar núna að vinna þá í eitt skipti fyrir öll. Lykilatriði í þessum leik er að halda kúlinu. Þetta verður þolinmæðisverk og þetta verður erfiðasti leikurinn í riðlinum,“ segir Bjarki og bætir við að það verði að halda haus þó það gefi á bátinn í leiknum.

„Við höfum ekki lent í alvöru mótlæti til þessa en ég er nokkuð viss um að það komi í þessum leik. Það verður prófsteinn á alla að glíma við það. Verðum að halda yfirvegun og halda plani. Það hlakka allir til í að spila aftur í þessari stemningu og við ætlum að reyna að njóta þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×