Innlent

Bar­áttan um Fram­sókn muni snúast um sögu­lega stöðu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ólafur Þ. Harðarson segir erfitt verkefni bíða þess sem kjörinn verður formaður Framsóknar.
Ólafur Þ. Harðarson segir erfitt verkefni bíða þess sem kjörinn verður formaður Framsóknar. Vísir/Ívar Fannar

Fyrsti frambjóðandinn til að tilkynna framboð til formanns Framsóknar steig fram í dag. Tveir til viðbótar liggja undir feldi en flokkurinn velur sér nýjan formann á flokksþingi í febrúar. Stjórnmálafræðingur segir um tímamótaákvörðun að ræða enda hafi flokkurinn aldrei verið í erfiðari stöðu.

Eftir áratug í starfi tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson í október að hann myndi ekki bjóða sig fram aftur til formanns Framsóknar á flokksþingi sem fer fram um miðjan febrúar. Síðan þá hefur leit staðið yfir að arftaka hans á bak við tjöldin og ýmis nöfn ítrekað verið nefnd til sögunnar. 

Það var hins vegar ekki fyrr en í dag sem baráttan um Framsókn hófst fyrir alvöru þegar Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður lýsti formlega yfir framboði til formanns. Enn liggja þó tveir undir feldi, þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður flokksins og Willum Þór Þórsson fyrrverandi þingmaður. En um hvað mun baráttan um Framsóknarflokkinn snúast?

„Ja, staða Framsóknarflokksins núna er erfiðari heldur hún hefur verið nokkurn tímann í 110 ára sögu flokksins,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði. „Þannig að formannsins bíður erfitt verkefni og mér þykir líklegast að slagurinn snúist bara um það hvern Framsóknarmenn telja líklegastan til að snúa gengi flokksins við og auka fylgið.“

Þannig mældist flokkurinn síðast í þjóðarpúlsi Gallup rétt með um 5,2 prósenta fylgi og áður hefur flokkurinn mælst út af þingi. Willum segist í samtali við fréttastofu enn vera undir feldi. Ekki hefur náðst í Lilju en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hún þegar hafið undirbúning við framboð sitt og hafist handa við að skrá fulltrúa á flokksþing. Ingibjörg Isaksen segist vonast eftir mótframboði og segir landsmenn kalla eftir breytingum.

„Þetta snýst um hvernig við viljum sjá Framsókn vaxa, hvernig við viljum sjá Framsókn sem það áhrifaafl sem við viljum sjá til framtíðar, þannig við getum raunverulega haft áhrif fyrir íslenskt samfélag,“ segir Ingibjörg.

Willum og Lilja hafa ekki átt sæti á þingi síðan í síðustu alþingikosningum. Willum kom fyrst inn á þing árið 2016, Lilja 2017 en Ingibjörg árið 2021. „Þau eru þekktari stærð en það geta líka falist tækifæri í því að vera óþekkta stærðin. Ég er inni á þingi með tvo þingmenn úr mínu kjördæmi, sterkt kjördæmi á bakvið mig og það er mikilvægt líka að við höfum sterka og mikilvæga rödd á Alþingi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×