Fótbolti

„Börnin mín fengu mig til að hætta með reiði­köstin“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany var léttur á blaðamannafundinum í gær.
Vincent Kompany var léttur á blaðamannafundinum í gær. Getty/S. Mellar

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Bayern München, sagðist hafa lært að halda ró sinni því hann vill ekki blóta og missa stjórn á skapi sínu fyrir framan börnin sín.

Gömul myndbönd með fyrrverandi fyrirliða Manchester City hafa komið honum í vandræði heima fyrir, eins og hann upplýsti á meðan hann undirbjó lið sitt fyrir leikinn gegn botnliði Augsburg í þýsku deildinni á Allianz Arena.

Eitt af þeim var örugglega þegar hann lét íslenska landsliðsmanninn Jóhann Berg Guðmundsson heldur betur heyra það á æfingu hjá Burnley.

Þegar Kompany var spurður hvenær hann yrði pirraður sagði hann á blaðamannafundi: 

„Börnin mín sáu það alltaf á YouTube þegar ég blótaði í ensku úrvalsdeildinni. Það setur mig ekki í sterka stöðu heima þegar ég er að ala þau upp og segja þeim hvað þau mega segja og hvað ekki. Börnin mín fengu mig til að hætta með reiðiköstin,“ sagði Kompany.

„En ég verð virkilega pirraður þegar við erum of hrokafull. Við verðum að vera sannfærð um hversu sterk við erum, og við vitum það nú þegar, en mér líkar ekki við óþarfa hroka. Ef við gerum minna en við eigum venjulega að gera, þá verð ég stundum pirraður,“ sagði Kompany.

„Fyrir mér er þessi vinna svo mikilvæg, merki um virðingu gagnvart félaginu, gagnvart andstæðingunum. Þess vegna reyni ég að vera eins rólegur og mögulegt er,“ sagði Kompany.

Bæjarar eru með ellefu stiga forskot á Borussia Dortmund á toppi þýsku deildarinnar, þótt þeir hafi þurft að koma til baka til að sigra bæði FC Köln og RB Leipzig í síðustu tveimur deildarleikjum sínum fyrir 2-0 sigurinn í Meistaradeildinni gegn Union St-Gilloise á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×