Innlent

Vand­ræða­gangur með skila­boð á versta tíma fyrir Heiðu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðmundur Heiðar segir gott ráð á tækniöld að líta á öll einkaskilaboð í kosningabaráttu sem opinber. Mýmörg dæmi séu um að einkaskilaboð séu gerð opinber.
Guðmundur Heiðar segir gott ráð á tækniöld að líta á öll einkaskilaboð í kosningabaráttu sem opinber. Mýmörg dæmi séu um að einkaskilaboð séu gerð opinber. samsett

Guðmundur Heiðar Helgason, almannatengill hjá vörumerkjastofunni Tvist, segir að frambjóðendur í kosningabaráttu þurfi að hugsa um einkaskilaboð til kjósenda sem opinber skilaboð nú á stafrænum tímum. Hann segir vandræðagang með skilaboð borgarstjóra um að mótframbjóðandinn sé „frægur karl með enga reynslu“ koma upp á versta tíma.

Í Pallborðinu á Vísi í gær voru skilaboðin borin undir Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra en þar sagðist hún ekki muna eftir skilaboðunum. Í gærkvöldi sendi hún síðan frá sér tilkynningu þar sem hún tók á ábyrgð á ummælunum og bað Pétur afsökunar.

„Það mætti segja að það sé fyrst og fremst svolítið neyðarlegt það sem kom upp á í gær. Það þarf náttúrulega að gera ráð fyrir því í svona kosningabaráttu að allt skriflegt sem þú sendir út sé eins og opinber skilaboð og ekki endilega einkasamtal því maður hefur séð það áður að svona skilaboð fara síðan á flakk.“

Hughrifin þau að ekki sé verið að taka ábyrgð

Þannig sé góð regla fyrir frambjóðendur í kosningabaráttu að hugsa fyrst áður en skeyti er sent hvort þeir gætu treyst sér til að standa opinberlega með því sem stendur í umræddu skeyti. Það vakti til dæmis mikla athygli í aðdraganda síðustu alþingiskosninga þegar formaður Samfylkingarinnar sagði Dag B. Eggertsson aukaleikara. Guðmundur segir skipta miklu máli hvernig tekið sé á vandræðamálum.

„Það sem gerir þetta aðeins neyðarlegra er að segjast fyrst ekki muna eftir þessu og skömmu síðar gangast við því. Þá má vel vera að það sé hárrétt að þetta hafi verið svona hjá henni; að hún sé búin að senda fullt af skilaboðum og að hún hafi hreinlega ekki munað eftir þessum tilteknu skilaboðum fyrr en hún skoðaði málið.

En það sem skiptir máli eru hughrifin. Fólk upplifir þennan vandræðagang og þá verða þessi hughrif sjálfkrafa að hún hafi fyrst reynt að komast hjá því að taka ábyrgð á skilaboðunum og þannig verður augnablikið svolítið skrítnara og vandræðalegra,“ útskýrir Guðmundur Heiðar.

Úrslitin ráðast í kvöld

Tímasetning skilaboðanna kemur á slæmum tíma fyrir Heiðu því það kemur í ljós um sjöleytið í kvöld hvort Pétur eða Heiða muni leiða Samfylkinguna í borgarstjórnarkosningunum í vor.

„Þetta væri allt annað mál ef það væru tvær vikur í kosningar. Tímasetningin fyrir Heiðu er frekar óheppileg en ef við ættum að draga eitthvað jákvætt fram þá er það að hún hafi gengist fljótt við því að hafa sent þessi skilaboð og það er jákvætt að hún hafi beðið Pétur afsökunar á því og það gerir baráttuna aðeins drengilegri og það held ég að við séum öll sammála um að sé jákvætt.“

Pétur hafi afgreitt málið snyrtilega

Pétur fékk líka ákveðið „próf“ í Pallborðinu í gær en undir hann voru borin skilaboð þar sem sjá mátti fólk hvetja aðra til að greiða atkvæði með tilteknum lista frambjóðenda í prófkjörinu þar sem Pétur var efstur. Hann neitaði fyrir að þetta væri með hans samþykki.

„Mér fannst hann gera það vel. Það hefur margoft sýnt sig að í svona baráttu er alls konar fólk í kringum baráttuna sem er að reyna að gera sitt besta til að hjálpa en ganga aðeins of langt. En mér finnst hann gera vel með því að taka skýra afstöðu: „Nei, þetta kemur ekki beint frá mér“ og í rauninni afgreiða þetta snyrtilega.“

Flokksforvali Samfylkingarinnar lýkur klukkan 18 í kvöld en þá kemur Samfylkingarfólk saman í Iðnó þar sem úrslit flokksvalsins verða síðan kynnt en kjörstjórn stefnir á að úrslit verði kynnt um sjöleytið. Fulltrúar fréttastofu Sýnar verða að sjálfsögðu á staðnum og við verðum í beinni útsendingu frá Iðnó á Vísi í kvöld.


Tengdar fréttir

Gengst nú við skilaboðunum umdeildu

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri og oddvitaefni Samfylkingarinnar í Reykjavík, gengst við því að hafa sent skilaboð á kjósanda þar sem hún sagði mótframbjóðanda sinn frægan karl með enga reynslu. Hún biður Pétur Marteinsson afsökunar en fyrr í dag sagðist hún ekki muna eftir því að hafa sent umrædda orðsendingu. 

Svona var Pallborðið með Heiðu Björgu og Pétri

Klukkan 13 mætast Heiða Björg Hilmisdóttir og Pétur Marteinsson, sem bæði sækjast eftir oddvitasæti Samfylkingarinnar í borginni, í Pallborðinu á Vísi. Þetta er í síðasta sinn sem oddvitaframbjóðendurnir mætast fyrir prófkjörið sem fer fram á morgun.

Hiti færist í leikinn: „Frægur karl með enga reynslu“

Gríðarleg harka er að færast í prófkjörsbaráttuna í Samfylkingunni og kannski ekki seinna vænna. Þrjú þúsund manns hafa skráð sig í flokkinn en lokað var fyrir skráningar á miðnætti. Meint skilaboð frá Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra, þar sem hún fer fram á stuðning gegn frægum karli, eru í umferð. Heiða kannast ekki við að hafa sent slík skilaboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×