Skoðun

Upp­bygging á Blikastöðum

Anna Sigríður Guðnadóttir skrifar

Lagt hefur verið fram deiliskipulag 1. áfanga uppbyggingar í Blikastaðalandi þar sem gert er ráð fyrir allt að 1260 íbúðum. Nú fer í hönd tími þar sem bæjarbúar geta kynnt sér skipulagið, bæði á opnum fundum og kynningarfundum sem og á vef Mosfellsbæjar og skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og sent inn athugasemdir.

Hvað er sérstakt við þetta skipulag?

Skipulagið er athyglisvert af ýmsum ástæðum. Eitt höfuðeinkenni þess er að það er í alvöru gengið út frá grænni, umhverfisvænni hugmyndafræði við gerð þess. Áður en nokkur bygging var sett niður í skipulagi var náttúran og tenging við græn svæði kortlögð og skipulögð með það í huga að byggðin verði löguð að umhverfinu. Þannig verður náttúran órjúfanlegur hluti daglegs lífs íbúanna en ekki eitthvað sem þarf að sækja um langan veg.

Hvað með yfirbragð byggðarinnar?

Blikastaðalandið er stærsta land sem hefur verið tekið til skipulagningar í Mosfellsbæ. Núna er það fyrsti áfangi sem lagður er fram en gert er ráð fyrir að uppbyggingaráfangar verði þrír. Það hefur borið á áhyggjum íbúa varðandi það að yfirbragð byggðar í Mosfellsbæ muni taka miklum breytingum við þá íbúafjölgun sem verður eftir uppbyggingu. Það er eðlilegt og mannlegt viðbragð. En þéttleiki byggðarinnar verður ekki meiri en við eigum að venjast í nýbyggðum hverfum bæjarins. Það sem verður nýtt í Blikastaðahverfi verður fjölbreytileiki byggðarinnar. Þarna verða einbýli, tvíbýli, fjórbýli, raðhús og fjölbýlishús. Í öllu skipulaginu er sérstaklega hugað að því að allar íbúðir njóti birtu og dagsljóss. Þá er vert að benda á að bílastæði verða 1,5 að meðaltali á hverja íbúð.

Með fjölbreytileika byggðarinnar aukum við möguleika ungra Mosfellinga á að kaupa sér húsnæði í heimabyggð. Í heimabænum okkar, þar sem sum hafa alið manninn allan sinn aldur en önnur kosið að setjast hér að. Að mínu mati er í þeirri deiliskipulagstillögu sem nú er lögð fram lögð áhersla á að halda í þá þætti sem gera heimabæinn okkar að því bæjarfélagi sem okkur líður vel í. Þau lífsgæði sem felast í nálægð við grænt og vænt umhverfi, samfélagslegan auð nálægðarinnar við fólk sem vill búa til og búa í nærandi og fjölbreyttu umhverfi þar sem er pláss fyrir okkur öll. Bæjarbragurinn byggir nefnilega á þátttöku allra.

Sjálfbærni til framtíðar

Uppbygging á Blikastaðalandi mun ekki bara auka möguleika ungs fólks á að setjast að í Mosfellsbæ heldur einnig styrkja bæði fjölbreytt mannlíf og fjárhagslegan grundvöll bæjarfélagsins til framtíðar. Með aukinni atvinnuuppbyggingu á atvinnusvæðum skipulagsins verður meira framboð á atvinnu í heimabyggð sem og þjónustu fyrir bæjarbúa í nærumhverfinu. Hvort tveggja ýtir undir fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélagsins til framtíðar sem er gríðarlega mikilvægt þegar horft er á rekstrarumhverfi sveitarfélaga.

Hvað gerist núna?

Deiliskipulagið er nú í auglýstu kynningar- og athugasemdaferli. Það er mín skoðun að fyrirliggjandi skipulag sé vel heppnað og bjóði upp á möguleika á fjölbreyttu mannlífi og atvinnu- og þjónustuuppbyggingu sem svo sárlega hefur vantað í bæinn. Mín skoðun er einnig að skipulagið gefi tækifæri til að byggja áfram á grunni þess Mosfellsbæjar sem við þekkjum og þykir vænt um, bara aðeins fjölbreyttari.

Ég hvet Mosfellinga til að kynna sér vel fyrirliggjandi tillögu og senda inn athugasemdir sínar. Nú er tækifæri til að rýna vel, koma auga á það sem e.t.v. má betur fara og leggja fram hugmyndir um hvernig skipulagið geti orðið enn betra. Fram undan eru kynningarfundir þar sem boðið verður upp á samtöl um deiliskipulagið en dagsetningar þeirra má nálgast á vef Mosfellsbæjar. Fyrsta samtalið við hönnuði og starfsfólk Mosfellsbæjar verður á Bókasafni bæjarins þann 28. janúar kl. 17-18:30.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ




Skoðun

Sjá meira


×