Innlent

Leitað að fleira fólki á lista Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Samfylkingin valdi fólk í efstu sæti á lista flokksins í Reykjavík um helgina, en enn er óljóst hvort sitjandi borgarstjóri ætli að þiggja 2. sætið.
Samfylkingin valdi fólk í efstu sæti á lista flokksins í Reykjavík um helgina, en enn er óljóst hvort sitjandi borgarstjóri ætli að þiggja 2. sætið. Vísir/Samsett

Samfylkingin í Reykjavík óskar nú eftir tilnefningum á lista flokksins fyrir kosningarnar í vor. Um helgina var valið í efstu sex sætin á lista flokksins, en nú leitar uppstillingarnefndin að fólki sem vill sitja í sætum 7. til 46. á lista. Enn liggur ekki fyrir hvort Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ætli að taka 2. sætið á listanum sem hún tryggði sér í prófkjörinu um helgina þar sem hún tapaði oddvitasætinu. Gert er ráð fyrir að endanlegur listi verði kynntur í síðasta lagi í lok febrúar.

Í tölvupósti sem skráðir félagar í Samfylkingunni í Reykjavík fengu í morgun er kallað eftir tilnefningum í næstu sætum listans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fara fram þann 16. maí.

„Takk fyrir ykkar framlag í lýðræðisveislu Samfylkingarinnar um helgina. Nú höfum við valið sex efstu frambjóðendur fyrir borgarstjórnarkosningarnar 16. maí. Það verða aðalkosningarnar sem við ætlum að vinna saman,“ segir meðal annars í póstinum sem fréttastofa hefur undir höndum.

Alls verða 46 nöfn á listanum þar sem borgarfulltrúar eru 23 og varaborgarfulltrúar 23. Í póstinum segir að félagsmenn geti boðið sig sjálfir fram eða tilnefnt aðra sem þeir telji að eigi erindi á framboðslistann. Tekið er á móti framboðum og tilnefningum í gegnum netfangið uppstillingarnefnd26@gmail.com til klukkan 16 á föstudaginn, 30. janúar.

„Uppstillingarnefnd mun skoða allar tillögur. Samkvæmt samþykkt Fulltrúaráðsins í Reykjavík skal framboðslisti kynntur eins fljótt sem auðið er og ekki síðar en 28. febrúar. Þá verður tillaga uppstillingarnefndar að framboðslista lögð fyrir allsherjarfund FSR. Uppstillingarnefnd skipa Björk Vilhelmsdóttir, Gréta Dögg Þórisdóttir, Magnús Skjöld, Starri Reynisson og Vilborg Oddsdóttir,“ segir ennfremur í póstinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×