Innlent

„Þetta er auð­vitað glæsi­legt fyrir flokkinn“

Árni Sæberg skrifar
Kristrún Frostadóttir er ánægð með prófkjör flokks hennar um helgina.
Kristrún Frostadóttir er ánægð með prófkjör flokks hennar um helgina. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, gefur ekkert upp um það hvernig hún greiddi atkvæði í nýafstöðnu prófkjöri flokksins í Reykjavík. Hún segir þátttökuna í prófkjörinu vera glæsilega fyrir flokkinn en ríflega fimm þúsund flokksfélagar tóku þátt í því, margir hverjir spánnýir í flokknum. Þá vill Kristrún ekki tjá sig sérstaklega um orð borgarstjóra um að flokksfélagar hafi hafnað reyndri konu.

Pétur Marteinsson var kjörinn oddviti Samfylkingar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í vor í fjölmennu prófkjöri um helgina. Hann hlaut mikinn meirihluta atkvæða í baráttu við Heiðu Björgu Hilmisdóttir, núverandi oddvita og borgarstjóra.

Smári Jökull Jónsson fréttamaður ræddi prófkjörið við Kristrúnu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hefur ekkert sérstakt um ummælin að segja

Þessi ummæli Heiðu, um að Samfylkingin sé ekki tilbúin fyrir konu í leiðtogastöðu, hvað finnst þér um þau?

„Fyrst vil ég segja að við erum að koma út úr fimm þúsund manna prófkjöri í Samfylkingunni. Þetta er auðvitað glæsilegt fyrir flokkinn og það skilaði sér auðvitað sú niðurstaða að sá oddviti sem var kjörinn er með gríðarlega sterkt umboð. Ég skil auðvitað að því fylgi vonbrigði að fólk fái ekki það sæti sem það sækist eftir. Heiða hefur staðið sig vel sem borgarstjóri. Hún var formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún hefur verið í öðru sæti frá því 2018 og það er gott sæti að vera í á lista hjá Samfylkingunni. Þannig að það er mjög eðlilegt að það séu vonbrigði sem fylgi því. En í lok dags er þetta bara gríðarlega öflug niðurstaða fyrir flokkinn,“ segir Kristrún.

Hún hafi ekkert sérstakt um ummæli Heiðu Bjargar að segja. Henni hafi verið treyst af flokknum en fyrir prófkjörið hafi komið fram skýrt ákall um breytingar hjá Samfylkingunni í borginni. Pétur sé búinn að fá mjög sterkt umboð til þess að leiða slíkar breytingar núna í vor.

Samfylkingin farið ört stækkandi

Þá segir Kristrún að það hafi sýnt sig í prófkjörinu um helgina að það er búið að virkja gríðarlegan hóp af fólki.

„Samfylkingin hefur auðvitað farið ört stækkandi núna á undanförnum árum og misserum og við sjáum þarna að það er mikill vilji til þess að taka þátt í þessu prófkjöri. Þannig að ég meina, stefnan verður áfram sú sama en það er vilji til þess að fá inn nýtt fólk í sum sæti til þess að knýja fram þessar breytingar. Við eigum að hlusta á grasrótina, við eigum að hlusta á fólkið sem skráir sig í flokkinn, sem er skráð í flokkinn og vill virkja lýðræðið og þetta er mjög sterkt umboð sem Pétur er að fá.


Tengdar fréttir

Veitir ekki viðtöl að sinni

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mun ekki veita viðtöl um úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar í dag. Enn er óvíst hvort hún þiggi annað sætið á lista flokksins í vor. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×