Innlent

Mál rúss­nesku fjöl­skyldunnar: Króatía sé talið öruggt land

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir málið afar erfitt.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir málið afar erfitt. Vísir/Lýður Valberg

Dómsmálaráðherra segist hafa óskað eftir upplýsingum um aðstæður hælisleitenda í Króatíu í kjölfar umfjöllunar um fimm manna fjölskyldu sem vísað var frá Íslandi. Fjölskyldufaðirinn dvelur í lokaðri móttökustöð en móðirin er ein með börnin þrjú.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir að um afar erfitt mál sé að ræða.

„Mér finnst rík ástæða til að nefna það og halda því til haga að við erum með sjálfstæðar stofnanir, sjálfstæða kærunefnd sem fer yfir þessi mál, tekur ákvarðanir til þess að stjórnmálin séu ekki að skipta sér af. Til þess að öll mál fái sambærilega meðferð í nafni jafnræðis,“ sagði hún eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Á sunnudag barst fréttastofu yfirlýsing frá fjölskylduföðurnum Gadzhi Gadzhiev en honum var vísað úr landi í október ásamt Mariiam Taimova konu sinni og þremur börnum. Þá voru tvær vikur liðnar frá því að Mariiam gekkst undir keisaraskurðaðgerð til að fæða tvíbura hjónanna. Þau flúðu upphaflega frá Rússlandi eftir að Gadzhiev sætti fangelsisvist ytra fyrir að úttala sig gegn rússneskum stjórnvöldum.

Gadzhiev sagði í yfirlýsingunni að fjölskyldunni hefði verið sundrað. Hann dvelur í lokaðri móttökustöðu og tekur þátt í hungurverkfalli til að mótmæla „kerfisbundinni og tilefnislausri frelsissviptingu“.

Króatía talið öruggt land

Þorbjörg segist hafa aflað sér upplýsinga um aðstæður hælisleitenda í Króatíu í kjölfar umfjöllunarinnar. Hún hafi fengið þau svör að Króatía sé talið vera öruggt land.

„Þar þykir málsmeðferð vönduð lagalega og uppfylla skilyrði sem gerð eru samkvæmt mannréttindasáttmálum og það er af þeirri ástæðu sem útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála fara í það á grundvelli Dyflinnarreglugerðar að senda málið þangað þar sem það fær sína málsmeðferð,“ segir hún.

„Meira get ég ekki sagt um þetta mál en ég skil mjög vel að það veki upp tilfinningar hjá fólki.“

Dyflinnarreglugerðin segir til um að fyrsta Schengen-landið sem hælisleitendur eru skráðir inn í beri meginábyrgð á meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd. Þar sem Gadzhiev og fjölskylda fóru í gegnum Króatíu til að koma til Íslands sé mál þeirra á ábyrgð Króata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×