Atvinnulíf

Z-kynslóðin sem for­eldrar byrjuð að breyta leik­reglunum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Z kynslóðin er byrjuð að breyta svo mörgu í atvinnulífinu. Því nú fjölgar í þeim hópi Z-kynslóðarfólks sem er að eignast börn. Og sem foreldrar hugsa þau allt öðruvísi um hlutverkið sitt og vinnuna en eldri kynslóðir hafa gert til þessa.
Z kynslóðin er byrjuð að breyta svo mörgu í atvinnulífinu. Því nú fjölgar í þeim hópi Z-kynslóðarfólks sem er að eignast börn. Og sem foreldrar hugsa þau allt öðruvísi um hlutverkið sitt og vinnuna en eldri kynslóðir hafa gert til þessa. Vísir/Getty

Það er svo dásamlegt að upplifa hvernig Z-kynslóðin er byrjuð að hafa þau breytingaráhrif sem búið er að spá fyrir um í nokkuð langan tíma.

Því nú er Z-kynslóðin byrjuð að sýna sig í foreldrahlutverkinu.

Og það á vinnustöðum.

Með tilheyrandi breytingum.

Því þetta er ekki aðeins sú kynslóð sem sögð er hafna kulnun formlega og meðvitað heldur kynslóðin sem er að kenna okkur svo ný viðhorf að við sem eldri erum megum hafa okkur öll við.

Við erum hreinlega ekki vön því að einhver segi til dæmis:

Ég verð alveg frá það sem eftir er í dag vegna þess að ég fer snemma að sækja á leikskólann og held því bara áfram í fyrramálið.

Eldri kynslóðir hefðu frekar hugsað; 

Bíddu, hvernig get ég klárað vinnuna í dag ef mér er ætlað að fara snemma og sækja á leikskólann?

Vinnumenningin mun einfaldlega breytast svo mikið með þessari kynslóð. Enda er Z-kynslóðin kynslóð sem ætlar sér ekki að fórna einkalífinu fyrir rekstrarhagnaðinn.

Sumsé: Orðið ebitda er út.

Til að setja hlutina í samhengi er ágætt að rifja upp að Z-kynslóðin er fædd tímabilið 1995-2012.

Sem þýðir að smátt og smátt er að fjölga í þeim hópi fólks í atvinnulífinu sem teljast til Z-kynslóðarinnar og eru nú að eignast börn.

Í grein FastCompany eru málin sett í skemmtilegt samhengi. Þar sem bent er á, hvaða áhrif Z kynslóðin sem foreldrar, er nú þegar að hafa á almennar leikreglur í atvinnulífinu.

Þetta er til dæmis kynslóðin sem er alin upp við setningar eins og:

Gerðu það sem þú elskar

Finndu þína ástríðu

… sem er ekkert skrýtið því foreldrar Z-kynslóðarinnar er fólk sem upplifði það að námslánin drápu oft þessar hugsjónir; örmögnunin varð síðan alveg. Enda hölluðu foreldrarnir sér að kerfinu;  keyptu íbúð og bíla, eignuðust börn, unnu allan sólarhringinn og lentu síðan á vegg.

Í heimsfaraldrinum fóru þessir sömu foreldrar í allsherjar-naflaskoðun og miðluðu þeirri naflaskoðun til barna sinna eins og við á.

Z-kynslóðin er því mætt til leiks í atvinnulífið án þess að sjá fyrir sér að dugnaður sé dyggð. Enda vinnan aðeins hluti af miklu stærra lífi og starf ekki skilgreining á því hver við erum.

Z-kynslóðinni finnst alls ekki töff að monta sig af því að vera upptekin. Í þeirra huga er mikið álag ekki staðfesting á metnaði.

Z-kynslóðin er einfaldlega að kenna okkur að sjálfsumhyggja sé í fyrsta sæti. Sem þýðir að þau vilja stöðuhækkun í starfsframa, en ekki kulnun. Þau vilja leiðtogahlutverk, en ekki óeðlilegar kröfur um árangur eða vinnu.

Og sem foreldrar eru þau nú þegar að sýna það viðhorf að auðvitað hafi foreldrahlutverkið áhrif á vinnu. Sem vinnumarkaðurinn þarf að aðlaga sig að en ekki öfugt.

Áður hugsuðu eldri kynslóðir: Hvernig á ég eiginlega að geta gert þetta? 

En nú er Z-kynslóðin mætt til leiks og hún hugsar: 

Hvers vegna er kerfið eiginlega byggt svona upp?

Og þetta hugarfar eitt og sér er sagt það líklegasta til að geta breytt öllu. 


Tengdar fréttir

Fjórðungur Z-kynslóðarinnar hyggst flytja til útlanda

„Það sem er athyglisvert er að fjórðungur Z-kynslóðarinnar hyggst flytja til útlanda í fimm ár eða lengur. Og spurningin er þá: Ef svo verður, mun þetta fólk snúa til baka?“ spyr Trausti Haraldsson framkvæmdastjóri rannsóknarfyrirtækisins Prósent.

24 ára milljónamæringur: Með eitt par af hnífapörum, einn disk og örbylgjuofn

„Ég var með einn gaffal, einn hníf, einn disk og örbylgjuofn. Ég vaskaði upp þegar að ég fór í sturtu í áhaldageymslunni í kjallaranum,“ segir Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri og einn af eigendum Hopp rafhlaupahjólaleigunnar þegar hann rifjar upp fyrstu misserin sín í Reykjavík. Þá rétt að verða 16 ára, á leigumarkaði og í skóla.

Z kyn­slóðin er allt öðru­vísi en eldri kyn­slóðir og mun breyta öllu

„Við þurfum alltaf að taka samtalið. Við þurfum alltaf að passa að vera í samráði við unga fólkið því að þau munu breyta öllu. Z kynslóðin, sem nú er 10 til 27 ára, er kynslóð sem er allt öðruvísi en kynslóðin sem er ríkjandi stjórnendahópur í dag,“ segir Anna Steinsen einn eigandi KVAN.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×