Innlent

„Muni ekki valda neinu öðru en um­ferðar­öng­þveiti“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Einar Þorsteinsson mun áfram leiða lista Framsóknar í borginni í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Einar Þorsteinsson mun áfram leiða lista Framsóknar í borginni í komandi sveitarstjórnarkosningum. Vísir/Vilhelm

Oddviti Framsóknar í Reykjavíkurborg segir fyrirhugað deiliskipulag Borgarlínunnar um Suðurlandsbraut augljóslega ekki ganga upp. Frekar eigi að byggja mislæg gatnamót og gera forgangsaakreinar fyrir strætó.

Í dag var birt tillaga að deiliskipulagi Borgarlínunnar um Suðurlandsbraut. Á myndum sem borgin birti með má sjá að akreinum fyrir einkabíla verður fækkað í hvora átt.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í borginni, segir að umferðin líkt og hún er í dag gangi ágætlega þrátt fyrir umferðarteppur.

„Ég sé ekki fyrir mér að þessi tillaga muni valda neinu öðru en algjöru öngþveiti hér á Suðurlandsbrautinni og þetta er náttúrulega lykilsamgönguæð inni í borgarkerfinu. Við kjörnir fulltrúar höfum ekki fengið að sjá neinar greiningar á því hvernig umferðin mun færast annað, inn í hverfin eða sitja föst einhvers staðar annars staðar. Af því að þau gögn eru öll til. Það eru gerðar svona hermanir á því hvert umferðin fer og við höfum ekki fengið að sjá það,“ segir Einar sem ræddi málin í Reykjavík síðdegis í dag.

Hann tekur einnig fram að bílastæðunum fækki við götuna.

„Við sjáum það líka að það á að taka slatta af bílastæðunum hérna sem þjóna verslun og þjónustu á þessari mikilvægu götu þar sem eru fjölmörg fyrirtæki og fjölmennir vinnustaðir. Gott og vel, borgin á það land, en ég myndi nú halda að það væri hægt að byrja strax samtalið við þessa eigendur þessara húsa og rekstraraðila hér um það hvernig hægt sé að bæta þeim upp þessi bílastæði.“

Fara eigi í samráð við rekstraraðila við götuna núna en Einar telur að það sé oft seint að fara í slíkt eftir að deiliskipulagið hefur verið birt. Hann hefði viljað fara mun fyrr í samráðsferli með rekstraraðilunum.

Fylgjandi strætó

„Ég er fylgjandi því að við byggjum hérna upp öflugt almenningssamgöngukerfi þar sem strætó er á forgangsakreinum og það heitir Borgarlína, gott og vel. Það er bara eitt af púslunum í því að draga úr umferðartöfum á öllu höfuðborgarsvæðinu,“ segir Einar.

Hann sé hins vegar ekki hlynntur Borgarlínunni í útfærslu líkt og stefnt er á að Suðurlandsbrautin verði. Deiliskipulagið sé sniðmátið fyrir Borgarlínuna sem muni líka ganga um Kársnesið, upp á Höfða og inn í Hafnarfjörð. 

„Ég hef trú á því að eina leiðin til að bæta umferðinni á höfuðborgarsvæðinu miðað við þann vöxt í fjölda íbúa og vöxt í fjölda bifreðia sem færast hérna inn á höfuðborgarsvæðið, og í hverjum mánuði, að þá verðum við að byggja mislæg gatnamót, byggja göng eða grafa göng fyrir umferðina, gera forgangsakreinar fyrir strætó og hjólastíga og göngustíga. Þetta er samgöngusáttmálinn.“

Hefur ekkert á móti grasi

Einar segir þó ekki allt slæmt heldur verði til að mynda öruggara fyrir gangandi vegfarendur að fara yfir götuna og búinn verður til hjólastígur sem hann telur að margir muni nýta sér.

„Það eru mikil gæði í framkvæmdum þar sem umferðaröryggi er aukið og allt það. En það er hægt að útfæra þetta með betri hætti og ég sé það á þessum myndum að það eru fjölmargir metrar sem fara bara undir gras. Gott og vel, ég er ekkert á móti grasi en við erum reyndar með Laugardalinn hérna við hliðina á okkur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×