Bíó og sjónvarp

Ólafur Darri verður Þór

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Darri Ólafsson hefur tekið að sér að leika guðinn Þór í nýjum þáttum Amazon og Sony.
Ólafur Darri Ólafsson hefur tekið að sér að leika guðinn Þór í nýjum þáttum Amazon og Sony. Getty og Santa Monica Studios

Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson hefur tekið að sér að leika guðinn Þór í nýjum þáttum Amazon MGM og Sony. Þættirnir byggja á gífurlega vinsælum leikjum um spartverjan og seinna stríðsguðinn Kratos.

Til stendur að gera tvær þáttaraðir um söguna, sem á að snúast um nýjustu leikina tvo í God of War seríunni. Sá leikur fjallar um það að Kratos lifir í einangrun með eiginkonu sinni (Faye) og syni (Atreus) í heimi hinna norrænu guða en allt fer í háaloft þegar eiginkona hans deyr og hefjast ákveðnar deilur við norrænu guðina.

Þetta er eftir að Kratos hefur drepið Seif föður sinn og brennt Ólympus til grunna.

Sjá einnig: Guðir verða drepnir hjá Amazon

Þór er á þessum tímapunkti nokkuð niðurbrotinn og drykkfelldur guð.

Í færslu sem hann skrifaði á Facebook í kvöld segist Ólafur Darri hafa skemmt sér konunglega við að spila leikina. Með því að fá að taka þátt í að segja söguna í sjónvarpi með því að leika Þór sé ákveðinn draumur að rætast.

Hann segist ekki geta beðið eftir því að byrja að vinna með öllu því hæfileikaríka fólki sem mun koma að þáttunum.

Áður hafði, samkvæmt Deadline, verið tilkynnt að Ryan Hurst muni leika Kratos en Teresa Palmer mun leika Sif og Max Parker verður Heimdallur.

Hollywood Reporter segir að Mandy Patinkin hafi verið ráðinn til að leika Óðin.

Forsvarsmaður þáttanna er Ronald D. Moore, sem er hvað þekktastur fyrir Battlestar Galactica og Outlander. Tökur eru ekki byrjaðar en þær eiga að fara fram í Kanada.


Tengdar fréttir

God of War Ragnarök á PC: Kratos er enn klikkaður

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að God of War Ragnarök er enn þá frábær leikur, sama hvort hann sé spilaður í PlayStation eða PC-tölvu. Kratos er enn klikkaður og leikurinn stendur enn meðal þeirra allra bestu.

God of War Ragnarök - Einn af bestu leikjum Miðgarðs

Byrjum þetta einfalt. God of War Ragnarök er einhver besti leikur sem ég hef spilað. Starfsmönnum Santa Monica Studios tókst einhvern veginn að taka mjög góðan leik og gera framhald án þess að klúðra nokkru. Ég held svei mér þá að allt sé betra á milli leikja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.