Handbolti

Dani segir gagn­rýni Dags illa tímasetta

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson hefur hlotið mikið lof á samfélagsmiðlum eftir gagnrýni sína á EHF.
Dagur Sigurðsson hefur hlotið mikið lof á samfélagsmiðlum eftir gagnrýni sína á EHF. Getty/Sanjin Strukic

Claus Møller Jakobsen, fyrrverandi landsliðsmaður Danmerkur, segir hægt að sýna harðri gagnrýni Dags Sigurðssonar á mótahaldið á EM fullan skilning. Hún komi hins vegar á óviðeigandi tímapunkti.

Eins og fjallað hefur verið um á Vísi lét Dagur forráðamenn EHF, Handknattleikssambands Evrópu, fá það óþvegið á blaðamannafundi í Herning í gær, daginn fyrir undanúrslitin á EM. Þar fór hann yfir það hve illa er farið með leikmenn á mótinu en Króatar hafa spilað afar þétt, þar af síðustu tvo leikina í milliriðli á minna en sólarhring.

Þeir þurftu svo að ferðast í rútu í fjóra tíma frá Svíþjóð í gær, á eina hvíldardegi sínum fyrir undanúrslitaleikinn við Þjóðverja, og voru látnir dvelja á hóteli í Silkeborg, í 40 kílómetra fjarlægð frá Herning.

Þjóðverjar eru þó á sama hóteli en þeir hafa, líkt og Danir, spilað alla sína leiki á mótinu í Herning, auk þess sem leikir Þjóðverja hafa dreifst á tveimur fleiri daga en leikir Króata.

„Af hverju nefnir hann þetta ekki fyrir sex mánuðum?“

„Ég skil Dag Sigurðsson fullkomlega og punktar hans og rök eru gild og rétt,“ sagði Jakobsen sem er sérfræðingur TV 2 í Danmörku.

„Svo má spyrja, af hverju nefnir hann þetta þá ekki fyrir sex mánuðum, þegar mögulega var tækifæri til að fá þessu breytt. Einnig má segja að þeir hefðu getað skipulagt sig öðruvísi, þannig að þeir hefðu getað flogið frá Malmö [eftir sigurinn á Ungverjum á miðvikudaginn]. Danmörk hefur gert það við önnur tækifæri,“ sagði Jakobsen og bætti við:

„Ég skil hann fullkomlega. Mér finnst bara tímasetningin á gagnrýni hans svolítið óviðeigandi, nú þegar við stöndum frammi fyrir undanúrslitum samkvæmt áætlun sem hefur legið fyrir í sex mánuði. En hann hefur svo sannarlega rétt fyrir sér.“


Tengdar fréttir

„Aðrir sjá um að tuða yfir því“

Þrátt fyrir misheppnaða rútuferð, aukið álag, miðamál í ólestri er Bjarki Már Elísson helst spenntur fyrir því að takast á við Dani í undanúrslitum á EM í dag. Það hefur ekkert upp á sig að spá í hitt bullið.

Gísli gagnrýnir fyrirkomulagið á EM

Ekki eru allir sáttir með fyrirkomulagið á Evrópumótinu í handbolta. Þeirra á meðal er Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×