Handbolti

„Held að ég hafi sagt allt sem ég ætlaði að segja“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í króatíska landsliðinu leika um brons á sunnudaginn.
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í króatíska landsliðinu leika um brons á sunnudaginn. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta, var eðlilega svekktur eftir tap sinna mann gegn Þjóðverjum í undanúrslitum á EM í handbolta í dag.

Dagur og lærisveinar hans mættu lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu, þar sem Þjóðverjar höfðu að lokum betur, 31-28.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður hjá okkur, en við vorum samt tveimur mörkum undir. Við fengum eiginlega enga markvörslu og Þjóðverjarnir voru með mjög góða markvörslu og mér fannst það vera stærsti munurinn á liðunum,“ sagði Dagur í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson í leikslok.

„Það sem við lögðum upp með var bara vel gert. Það kom smá losarabragur á þetta í seinni hálfleik þegar við vorum byrjaðir að skipta inn á og við lentum í vandræðum með varnar- og sóknarskiptingar. En það gerðist eiginlega ekkert fyrr en Kuzmanovic varði nokkra bolta í lok leiksins og þá kom pressa sem við vildum halda á þeim. Þetta var smá svona stöngin út, stöngin inn og datt ekki með okkur. Þetta er sterkt þýskt lið og þeir voru betri en við.“

Þrátt fyrir tapið hrósaði hann sínum mönnum fyrir að hafa sýnt af sér mikla hörku undanfarna daga.

„Þetta tekur allt á þá. Maður sá það að Mandic, sem er búinn að vera okkar besti maður, dettur út og þetta er aðeins farið að slá í.“

Hann vildi þó ekki meina að lítill undirbúningstími hafi haft áhrif á króatíska liðið.

„Við skulum bara láta það liggja. Ég held að ég hafi sagt allt sem ég ætlaði að segja og nú eru það bara leikirnir sem skipta máli.“

Hann viðurkennir þó að líklega verði lítið eftir á tanknum hjá króatíska liðinu á sunnudaginn, þegar liðið leikur um brons.

„Orkustigið er lágt. En það þarf bara að pumpa í dekkin og gera sitt besta.“

Klippa: Dagur Sigurðsson eftir tapið gegn Þýskalandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×