Íslenski boltinn

Hvarflaði að mér að þetta væri búið spil hjá FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Pálsson.
Emil Pálsson. vísir/andri marinó
„Þetta eru stærstu einstaklingsverðlaun sem hægt er að fá þannig ég er bara virkilega stoltur og ánægður með þetta,“ segir Emil Pálsson, miðjumaður FH, sem var kjörinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar af leikmönnum deildarinnar.

Vanalega hefur tíðkast að besti leikmaðurinn fái verðlaunin á lokahófi KSÍ eða kaffiboði eins og hefur verið undanfarin ár, en að þessu sinni heimsótti knattspyrnuforustan Kaplakrika á lokahófi FH og afhenti Emil verðlaunin þar.

„Það var skemmtilegt að fá þetta fyrir framan alla FH-ingana,“ segir Emil. „Ég vissi ekki af þessu áður en ég mætti. Það var verið að afhenda verðlaun innan FH og nýbúið að velja Davíð Þór bestan hjá okkur sem var klárlega verðskuldað. Svo kom fólkið frá KSÍ og tilkynnti þetta.“

Skiptum þessu á milli okkar

Aðspurður hvort hann hafi ekki bent Davíð Þór á að hans verðlaun væru stærri en hjá fyriraliðnum hlær Emil og segir: „Nei, við Davíð skiptum þessu bara. Hann tók bestur að mati Pepsi-markanna og 433.is en ég tók fótbolti.net og leikmannavalið.“

Hann þakkar fyrirliðanum Davíð Þór að stórum hluta fyrir velgengni sína eftir að hann kom aftur í FH eftir að vera á láni hjá Fjölni. Emil var frábær í liði Fjölnis og átti þátt í sterkum fyrri hluta móts Grafarvogsliðsins. Þegar hann kom aftur heim í FH fór hann á flug og skoraði sex mörk í tólf leikjum.

„Davíð Þór hjálpaði mér virkilega mikið. Það gerir mann að betri leikmanni að spila með svona leiðtoga inn á miðjunni,“ segir Emil, en hjá Fjölni var hann einnig með annan leiðtoga og fyrrverandi FH-ing, Ólaf Pál Snorrason, með sér á miðjunni.

„Óli Palli er algjör topp maður og hjálpaði mér virilega mikið. Hann sagði við mig þegar ég var að taka ákvörðunina um að koam að ég þyrfti að breyta um umhverfi og fá að spila. Hann útskýrði fyrir mér að þetta væri gott fyrir alla. Ef FH myndi kalla á mig aftur væri ég tilbúnari og á meðan myndi ég hjálpa Fjölni og fá að spila.“

Hélt þetta gæti verið búið

Emil var svona enn að átta sig á viðurkenningunni þegar Fréttablaðið heyrði í honum í gær. Hann var þá líka að fagna 3-0 stöðu sinna manna í Arsenal gegn Manchester United. Ekki amaleg helgi.

„Ég er ekki enn þá búinn að átta mig á þessu. Áður en tímabilið byrjaði óraði mig ekki fyrir því að ég gæti orðið valinn bestur í deildinni. Þegar ég fékk bikarinn í gær skoðaði ég nöfnin á listanum og sá nöfnin á mönnunum sem eru á bikarnum. Þetta eru alvöru karlar og maður er bara hrærður að vera á sama lista,“ segir Emil, en er hann þá orðinn alvöru karl? Hann hlær. „Ég er ekki orðinn það, en kannski verð ég alvöru karl.“

Emil er fyrsti leikmaðurinn í sögunni síðan KSÍ hóf að útnefna besta leikmann efstu deildar sem spilar fyrir tvö félög sama árið. Það er ósköp eðlilegt að það hafi ekki gerst áður þar sem leikmenn sem líklegir eru til slíkra afreka eru almennt ekki lánaðir frá sínum liðum.

„Það hvarflaði alveg að mér að þetta væri búið spil hjá FH. Ég fékk úrslitakosti frá Heimi þjálfara eftir að spila fjögur frekar venjuleg tímabil í röð. Nú þyrfti ég að stíga upp. Mér gekk vel í æfingaferðinni þar sem ég skoraði sigurmark gegn Molden en eftir leik í Lengjubikarnum gegn Fylki spurði Heimir hvort ég vildi fara á lán,“ segir Emil og heldur áfram:

„Ég hugsaði alveg „Shit, ætli þetta sé búið hjá mér?“ Það koma alveg upp í hugann. Hvernig þetta fór svo er algjör draumur og auðvitað gaman að standa uppi sem meistari líka með þessu frábæra liði,“ segir Emil.

En hvað næst? Vill hann taka annað ár sem lykilmaður í ríkjandi meistaraliði eða heillar atvinnumennskan?

„Ég er með samning við FH til 2017 og það eru virkilega spennandi tímar framundan hér. Það væri gaman að ná öðru góðu tímabili og það myndi auðvitað hjálpa mér mikið, en ef eitthvað spennandi kemur upp erlendis væri ég til í að skoða það. Það er eðli fótboltamannsins,“ segir Emil Pálsson. tomas@365.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×