Enski boltinn

Pellegrini hættir hjá City og Pep tekur við

Tóams Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, tilkynnti það á blaðamannafundi í dag að hann hyggst hætta hjá félaginu eftir yfirstandandi tímabil.

Sílemaðurinn, sem áður hefur þjálfað River Plate, Villareal, Real Madrid og Málaga, tók við City-liðinu sumarið 2013 og gerði það að Englandsmeistara á fyrsta tímabili.

Pellegrini er í harðri baráttu um Englandsmeistaratitilinn við Arsenal og Leicester á þessari leiktíð, en nú er það orðið ljóst að hann verður ekki áfram stjóri liðsins.

Manchester City tilkynnti einnig í dag að félagið er búið að ná samningum við Spánverjann Pep Guardiola, þjálfara Bayern München. Hann tekur við liðinu í sumar og gerir þriggja ára samning.

Guardiola vann 14 stóra titla á fjórum árum hjá Barcelona áður en hann tók við Bayern og gerði liðið að Þýskalandsmeistara tvö ár í röð.

Mikil barátta hefur verið á milli Chelsea, Manchester City og Manchester United um undirskrift Spánverjans en nú er ljóst að hann stýrir City á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×