Eftir bardagann talaði Gunnar um að Ponzinibbio hafi potað í augun á sér.Myndir og myndbönd sem hafa birst á veraldarvefnum eftir bardagann sanna mál Gunnars sem þurfti að sætta sig við ósigur í bardaganum.
„Ég ætlaði að rota hann og guði sé lof gekk það eftir. Ég sigraði á rothöggi. Ef ég potaði í augun á honum var það ekki viljandi. Ég horfði aftur á bardagann og sá það ekki. Ég veit ekki. En ég náði rothöggi með hægri hendi. Það meiddi hann og svo kláraði ég hann með nákvæmri stungu,“ sagði Ponzinibbio.
„Þetta tekur ekkert frá sigrinum. Það sem hann segir breytir engu. Það er dómari inni í búrinu sem fylgist með og hann getur stöðvað bardagann hvenær sem er. Númer átta á heimslistanum entist í 82 sekúndur. Hann er 28 ára, fjölhæfur, frábær íþróttamaður, einn sá besti í þessum þyngdarflokki og á sér bjarta framtíð en þetta var frábær sigur. Hann entist í 82 sekúndur,“ bætti Argentínumaðurinn við.
Mjölnismenn eru afar ósáttir við augnapot Ponzinibbio og vilja að þeir Gunnar berjist aftur. Óvíst er hvað UFC gerir í málinu.