Handbolti

Fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni í 19 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Dagur átti frábæran leik gegn Haukum í gær. Hann skoraði átta mörk og gaf ellefu stoðsendingar.
Aron Dagur átti frábæran leik gegn Haukum í gær. Hann skoraði átta mörk og gaf ellefu stoðsendingar. vísir/bára
Stjarnan knúði fram oddaleik gegn Haukum í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla með stórsigri, 33-25, í öðrum leik liðanna í Mýrinni í gær.



Sigurinn var vægast sagt langþráður en þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni karla í 19 ár. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni í Mýrinni.

Stjarnan knúði fram oddaleik með sigri á Fram, 22-20, í Ásgarði í 8-liða úrslitum efstu deildar 28. mars 2000. Síðan liðu 19 ár fram að næsta sigri í úrslitakeppni hjá Stjörnunni.

Konráð Olavsson var markahæstur Stjörnumanna í leiknum gegn Frömurum fyrir 19 árum með átta mörk. Arnar Pétursson, fyrrverandi þjálfari ÍBV, skoraði sjö mörk. Meðal annarra þekktra leikmanna í liði Stjörnunnar má nefna Birki Ívar Guðmundsson, Eduard Moskalenko, Björgvin Rúnarsson og Hilmar Þórlindsson.

Fram vann oddaleikinn gegn Stjörnunni, 21-20, og tryggði sér sæti í undanúrslitum. Þetta var níunda árið í röð sem Stjarnan féll úr leik í 8-liða úrslitum. Raunar hefur Stjörnunni aldrei tekist að komast upp úr 8-liða úrslitunum frá því úrslitakeppnin var sett á laggirnar.

Stjarnan komst ekki aftur í úrslitakeppnina fyrr en á síðasta tímabili. Þá tapaði liðið, 2-0, fyrir Selfossi í 8-liða úrslitum.

Oddaleikur Stjörnunnar og Hauka fer fram á Ásvöllum annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30. Sigurvegarinn í oddaleiknum mætir Íslandsmeisturum ÍBV í undanúrslitum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×