Erlent

Óværan sem gerir usla á netinu

Útgáfur Netsky ormsins eru fyrirferðamestar á mánaðarlegum lista vírusvarnafyrirtækisins Central Command yfir "sóðatylftina," eða fyrirferðamestu tölvuóværuna í liðnum mánuði. Fyrsta sæti listans vermir hins vegar Sasser ormurinn, sem uppgötvaðist 30. apríl sl. Hann varð fljótlega mjög fyrirferðamikill og sýkti þúsundir Windows tölva um heim allan. Fjöldi fólks með Windows 2000 og XP stýrikerfi horfði á tölvur sínar í forundran þar sem þær endurræstu sig í sífellu án sýnilegrar ástæðu, en það er ein birtingarmynd sýkingar af Sasser. Ormurinn dreifir sér með því að nýta þekkta öryggisveilu í Windows í LSASS (Local Security Authority Subsystem Service) kerfi. Sífellt skjóta svo upp kollinum nýir ormar og vírusar. Meðal þeirra nýjustu sem Central Command varar við eru Plexus.A ormurinn, sem dreifir sér í tölvupósti; Padobot.F ormurinn, sem nýtir sér þekkta öryggisveilu í Windows; Agobot.300544 ormurinn sem borar sig í gegnum tölvunet með því að hagnýta sér þekktar öryggisveilur Windows; Rbot.92408 ormurinn sem dreifir sér yfir mIRC tölvuspjallnet.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×