Innlent

Algjör falleinkunn

"Það er ekki hægt að gefa þessu nema algjöra falleinkunn," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, um að stjórnarflokkarnir hafi enn ekki komið sér saman um frumvarp til að leggja fyrir þingið um hvernig staðið skuli að þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. "Ef þeir hefðu verið að taka samræmd próf í vor, Halldór og Davíð, þá yrðu þeir með síðustu mönnum inn í framhaldsskóla í haust ef þeir fengju yfir höfuð skólavist." Steingrímur segir deilur stjórnarflokkannan sýna fáránleg viðbrögð stjórnarinnar við ákvörðun forsetans hafi verið. Mánuður hafi farið til spillis í ekki neitt. "Ef þeir hefðu valið hinn augljósa og einfalda kost í byrjun, að drífa sig í að undirbúa kosningarnar á þann hátt sem ekki var umdeilt væri löngu búið að dagsetja kosningarnar, setja einföld lög um framkvæmdina og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hafin." Ráðherrar Framsóknar fóru af ríkisstjórnarfundi eftir skamma stund í gær, líkt og stjórnarandstaðan af fundi Halldórs og Davíðs fyirr nokkrum vikum. "Það er reyndar svoldið fyndið ef það er að verða hefð að menn tolli ekki inni á fundum með Davíð Oddssyni nema í kosningum," segir Steingrímur. "Það mætti spyrja hvort það væru hegðunarvandamál líka í þetta skiptið, og þá væntanlega hjá ráðherrum Framsóknarflokksins, sem hefði valdið þessari uppstyttu á fundinum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×