Innlent

Fjölmiðlalögin afturkölluð

Ákveðið hefur verið að afturkalla fjölmiðlalögin svokölluðu sem afgreidd voru frá Alþingi í vor. Nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum verður lagt fram á sumarþinginu sem hefst á morgun. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra tilkynntu þetta eftir þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í kvöld.  Ríkisstjórnin fjallað um málið fyrr í kvöld og að sögn Davíðs samþykkti hún tillöguna samhljóða. Forsætisráðherra sagði jafnframt að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hafi verið tilkynnt um niðurstöðuna. Halldór Ásgrímsson sagði þetta þýða að sérstökum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu verði ýtt til hliðar og reynt verði að skapa þverpólitíska sátt um hið nýja frumvarp. Gert er ráð fyrir að í nýja fjölmiðlafrumvarpinu verði hlutfall, sem markaðsráðandi fyrirtæki í öðrum rekstri geta átt í ljósvakamiðli, hækkað úr 5% í 10% að sögn Halldórs. Þá er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2007 þegar nýtt þing kemur saman eftir kosningar. Í lögunum sem sett voru í vor var gert ráð fyrir að þau tækju gildi um mitt ár 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×