Innlent

Hafa misst fjórðung stuðningsmanna

Stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, njóta sameiginlega fylgis tæplega 40 prósent þeirra sem taka afstöðu í skoðanakönnun Fréttablaðsins. Ef frá er talin könnun Fréttablaðsins frá síðari hluta maí hefur sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna ekki mælst minna í könnunum blaðsins. Frá því í október hafa stjórnarflokkarnir misst fjórðung stuðningsmanna sinna en þá nutu þeir sameiginlega fylgis 53,1 prósent kjósenda samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Kjörfylgi flokkanna var litlu minna eða 51,4 prósent. Í mars sýndi könnun blaðsins að sameiginlegt fylgi flokkanna var tæplega 51 prósent en mánuði síðar, eftir að fjölmiðlafrumvarp var kynnt, var fylgi flokkanna tveggja samtals 44,3 prósent samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Lægst fór sameiginlegt fylgi flokkanna í 35,9 prósent í lok maí en síðan jókst fylgið á ný og var komið í 45,2 prósent í seinni könnun blaðsins í júní. Þegar eitt ár var liðið á síðasta kjörtímabil, í júní árið 2000, nutu stjórnarflokkarnir sameiginlega um 59 prósenta fylgis samkvæmt skoðanakönnun Gallups.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×