Erlent

Ástandið verður betra í Írak

Ástandið í Írak verður betra en í tíð Saddams Hússeins takist að byggja upp lýðræðisríki þar, segir Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Hann gerir ekki athugasemdir við orð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í Hvíta húsinu í síðustu viku. Talið er að þrettán þúsund óbreyttir borgarar hafi fallið í Írak undanfarið rúmt ár og ríflega þúsund hermenn. Leyniþjónustu Bandaríkjanna og Bretlands hafa fengið bágt fyrir lélegar og stórýktar upplýsingar um gjöreyðingavopnaeign Íraka, sem voru upphafleg ástæða stríðsins, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur viðurkennt að líkast til muni aldrei nein gjöreyðingarvopn finnast. Davíð Oddsson lýsti hins vegar þeirri skoðun sinni í heimsókn í Hvíta húsinu í síðustu viku að ástandið í landinu væru mun betra nú en ella. Aðspurður hvort hann sé sammála þessu segir Halldór Ásgrímsson deildar meiningar vera um hvað gerðist í fortíðinni en enginn ágreiningur sé um það að byggja eigi upp lýðræði í Írak. Hann vonar að það eigi eftir að ganga vel. Aðspurður hvort rétt sé, miðað við þessar forsendur, að koma öllum illum einræðisherrum eins og Saddam frá - t.d. í Norður-Kóreu - segir utanríkisráðherra svo ekki vera því það verði að byggja á ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Þær hafi verið „búnar að álykta um Írak í heilan áratug. Engar slíkar ályktanir hafa verið samþykktar enn sem komið er varðandi Norður-Kóreu,“ segir Halldór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×