Innlent

Ánægður með viðsnúning

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í menntamálanefnd Alþingis, er ánægður með að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hafi lýst afráttarlausri skoðun á upptöku skólagjalda í Háskóla Íslands en hún varar við upptöku skólagjalda í grunnnámi á háskólastigi. "Fyrir það fyrsta þá fagna ég viðsnúningi ráðherrans af því að í drottningarviðtölum fjölmiðlanna fram að þessu hefur hún ítrekað lýst sig spennta fyrir að skoða upptöku skólagjalda til að fjármagna háskólanámið," segir Björgvin. Hann segir að ráðherrann hafi hins vegar gefið úr og í varðandi málið og aldrei staðfest skoðun sína í umræðum á Alþingi. "Það í sjálfu sér sé fagnaðarefni ,að því raunalega stefnuflakki sé lokið og hún kveði upp úr um hvað hún vilji sjá gert enda vonum seinna eftir að hafa hrakið Háskóla Íslands út í harkalegar og fordæmalausar fjöldatakmarkanir sem hafa stórskaðað þjóðskólann," segir hann. Hann ítrekar að Samfylkingin hafi lýst því yfir að vel komi til greina að taka upp skólagjöld í ákveðnum tegundum framhaldsnáms á háskólastigi en alfarið hafnað upptöku skólagjalda í grunnnáminu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×