Erlent

Verkamannaflokkurinn fær á baukinn

Breski Verkamannaflokkurinn fékk á baukinn hjá kjósendum í aukakosningum sem fram fóru í gær. Innan flokksins hafa menn af því vaxandi áhyggjur að stríðið í Írak gæti reynst flokknum dýrkeypt í næstu kosningum. Gert hafði verið ráð fyrir því að Verkamannaflokkurinn fengi skell í aukakosningum til þings í Leicester og Birmingham, og svo fór að flokkurinn tapaði einu þingsæti. Það er slæmt, en ekki eins slæmt og margir innan flokksins óttuðust. Flestir stjórnmálaskýrendur telja ástæður þessa vera skýrslu Butlers lávarðar, sem birt var á miðvikudag, og svo stefnu stjórnar Tonys Blairs. Breskir fjölmiðlar segja þungavigtarmenn innan Verkamannaflokksins hafa í vaxandi mæli áhyggjur af því að stríðið í Írak gæti haft veruleg áhrif á gengi flokksins í þingkosningum sem verða væntanlega á næsta ári. Ekki eru þó allir vissir um það. Peter Kellner stjórnmálaskýrandi segir næstu þingkosningar ekki munu snúast um Írak, a.m.k. ekki í hugum flestra kjósenda, heldur um efnahagsmál, skattamál, glæpi, heilbrigðis- og menntamál. Kellner á von á því að Verkamannaflokkurinn haldi velli en að það verði mjótt á mununum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×