Innlent

Engir fundir verið boðaðir

Engir formlegir fundir hafa verið boðaðir á meðal þingmanna framsóknarmanna og sjálfstæðismanna um helgina til að ræða fjölmiðlafrumvarpið. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks framsóknarmanna, segir að nú sé kröftum eytt í það að leita sátta og að menn ræði mikið saman í síma. Hann segist vera bjartsýnismaður og vonar að niðurstaða fáist í málinu sem allra fyrst. Hjálmar treystir sér ekki til að segja til um hvort þingmeirihluti sé fyrir fjölmiðlafrumvarpinu en Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, fullyrti að svo væri ekki í fréttum Stöðvar 2 í gær. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í allsherjarnefnd, segist ekki vita annað en að þingmeirihluti sé fyrir málinu ennþá. Hann segir Össuri farnast betur í að telja silung í Þingvallavatni en atkvæði á þingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×