Innlent

Vill enn fjölmiðlalög

Sjálfstæðismenn lýsa yfir vonbrigðum með málalyktir og sjá fram á að nýtt fjölmiðlafrumvarp verði lagt fram. Framsóknarmenn vildu koma í veg fyrir aukna sundrung. Stjórnarandstaðan segir niðurstöðuna gríðarlegt áfall fyrir ríkisstjórnina. "Það telja allir, nema þeir sem eru hrein handbendi aðila úti í bæ, að það eigi að setja reglur um fjölmiðla," sagði Davíð. "Stjórnmálamenn eiga að setja fram sjónarmið sín og berjast fyrir þeim. Ég tel að þegar rykið hefur sest munum við sjá hverjir hafa staðið málefnalega að málunum og hverjir ekki. Það er leiðinlegt að forseti skyldi ákveða að ráðast á Alþingi," sagði Davíð. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með málalyktir. "Það auðvitað blasir við að þær tillögur sem forsætisráðherra hefur teflt fram og þingflokkur okkar hefur stutt á þingi hafa ekki náð fram að ganga," sagði Bjarni. Jónína Bjartmarz, varaformaður, sagði niðurstöðuna hvorki sigur né ósigur nokkurs. "Við erum með þessari leið að reyna að skapa sátt í samfélaginu og koma í veg fyrir aukna sundrung," sagði Jónína. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna sögðust telja það lýðræðislegast og jafnframt öruggast gagnvart stjórnarskránni að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram. "Þetta er stórsigur þeirra sem hafa barist frá upphafi gegn þessum fráleita málatilbúningi ríkisstjórnarinnar og að sama skapi gríðarlegt áfall fyrir stjórnina," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna. Þinghald heldur áfram í dag og er búist við skjótri afgreiðslu málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×