Innlent

Tíu prósentin tekin úr samhengi

Formaður Vinstri - grænna segir forsætisráðherra ranglega hafa eignað honum þá hugmynd að markaðsráðandi fyrirtæki megi eiga tíu prósent í fjölmiðlum. Formaður Samfylkingarinnar segir takmörkun á eignarhaldi einungis síðasta kost séu aðrar leiðir ekki færar þegar unnið verði að nýjum fjölmiðlalögum. Samfylkingin telur fjögur atriði þurfi að vera í lögum um fjölmiðla. Styrkja þarf Ríkisútvarpið sem mótvægi við einkamiðla, setja þarf lög um gagnsætt eignarhald svo fólk viti hver á miðlana, ritstjórnir þurfa að setja sér innri reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði frá eigendum og styrkja þarf samkeppnislög og Samkeppnisstofnun. En hvað um takmörkun á eignarhaldi? Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir þingmenn flokksins á því að ekki eigi að ráðast í takmörkun á eignarhaldi eins og málum er skipað núna. Það sé aðeins ýtrasti kostur, séu aðrar leiðir ekki færar. Formaðurinn segir flokkinn hins vegar þeirrar skoðunar að það sé hægt að ná sama marki, og ríkisstjórnin vildi ná með takmörkun á eignarhaldi, með miklu vægari leiðum sem tryggi fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.    Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, segir misskilnings hafa gætt hjá forsætisráðherra og fleirum sem eyrnarmkerktu honumhugmyndina um tíu prósenta eignarhald markaðsráðandi fyrirtækja í fjölmiðlum. Hann segist aldrei hafa nefnt nein prósent í sambandi við hvaða eignarhlut hann sæi fyrir sér að væri í lagi að markaðsráðandi fyrirtæki mætti eiga í ljósvakamiðli. Steingrímur segist hafa nefnt að honum finndist fulllangt gengið að banna allt krosseignarhald milli ljósvaka og dagblaða, og í því samhengi hafi hann sagt að menn hefðu t.d. getað leyft eign af því tagi sem flokkuð væri undir virkan eignarhlut í fjármálaheiminum. Í því sambandi hafi hann nefnt tíu prósentin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×