Innlent

Ekki brella að afturkalla lögin

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir það ekki brellu að afturkalla fjölmiðlalögin, eins og nú hefur verið gert, og komast þannig hjá þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann segir „brelluummæli“ á heimasíðu sinni hafa átt við breytingar á lögunum en ekki afturköllun þeirra. Á heimasíðu sinni 3. júní skrifaði Björn Bjarnason um það álit Sigurðar Líndal lagaprófessors að „...alþingi geti bara breytt lögunum og þannig komist hjá því, að þjóðin segi álit sitt á þeim. Ef slíkum brellum yrði beitt, er ég hræddur um, að einvers staðar mundi heyrast hljóð úr horni.“ Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar 6. júlí eftir að ljóst var að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ekki, heldur lagt fram nýtt fjölmiðlafrumvarp svaraði Björn: „Þá var spurningin um það hvort það ætti að breyta lögunum eða frumvarpinu ...og síðan að fara að stað aftur. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að afturkalla lögin og setja ný lög ...“ Nú þegar staðan er sú að lögin hafa verið afturkölluð, og farið verður af stað aftur með fjölmiðlalög í haust en ekki í sömu aðgerð, var á ný óskað eftir viðtali við Björn Bjarnason í dag. Hann neitaði því og sagði þetta útúrsnúning þar sem hann hafi talað um „breytingar“ en ekki „afturköllun“ í pistli sínum. Björn sagðist ekki skulda fréttamanni nánari skýringu á þessu. Hvað varðar hugtökin „að breyta“ og „að afturkalla“ má benda á að til þess að afturkalla lögin, þurfti að breyta frumvarpinu. Björn svaraði ekki heldur þeim orðum Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis í dag að aðferðin sem væri þá stundina til umræðu, þ.e. afturköllun laganna, hefði dómsmálaráðherra kallað brellu á heimasíðu sinni 3. júní sl.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×