Innlent

Vilja sjúkraskýrslur frá Litháen

Beiðni verjenda í líkfundarmálinu í Neskaupstað um að ákæruvaldið aflaði sjúkraskýrslna frá Litháen um hugsanleg veikindi Vaidasar Jucevicius, var hafnað af dómara Héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Verjendurnir óskuðu eftir úrskurði í málinu. "Fram kemur í bréfi frá verjendum að á meðan sjúkraskýrslur liggi ekki fyrir eru ályktanir meinafræðings um áhrif veikinda á dánarorsökina í rauninni ekkert annað en getgátur. Það verður að liggja fyrir hvað var að manninum," segir Sveinn Andri Sveinsson, einn verjenda í málinu. Saksóknari sagði ekki þörf á að afla gagnanna. Í skýrslu réttarmeinafræðings er dánarorsök Vaidasar sögð vera stífla í mjógirni. Þá segir einnig að ör á kviði Vaidasar bendi til þess að hann hafi farið í kviðarholsaðgerð en þó sé ekki hægt að sjá hvers vegna aðgerðin hafi verið framkvæmd. Sakborningarnir þrír, þeir Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakauskas, mættu ekki í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær í annarri fyrirtöku málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×