Innlent

Kennurum fjölgar um tæp 30 prósent

Frá árinu 1998 hefur stöðugildum grunnskólakennara fjölgað um tæplega þrjátíu prósent á sama tíma og nemendum fjölgaði einungis um 5,6 prósent, að því er fram kemur í frétt frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hefur stöðugildum annarra starfsmanna grunnskóla fjölgað um rúmlega helming á sama tímabili. Stöðugildi kennara í grunnskólum voru 3.202 árið 1998 en árið 2003 voru þau 4.109 og hafði því fjölgað um 28,3 prósent. Stöðugildum annars starfsfólks fjölgaði á sama tíma úr 1.419 í 2.177, eða um 53,4 prósent. Samanlögð fjölgun starfsfólks grunnskóla á þessu tímabili er 36 prósent. Fjöldi nemenda fór hins vegar úr 42.421 árið 1998 í 44.809 árið 2003. Fyrir hverja þrjá nemendur sem fjölgaði um urðu til tvö ný stöðugildi í grunnskólunum á þessu tímabili. Segir í frétt Sambands íslenskra sveitarfélaga að þessi mikla fjölgun kennara og annars starfsfólks hljóti að hafa haft jákvæð mótvægisáhrif vegna sívaxandi álags starfsfólks sem oft hefur verið nefnt í fjölmiðlaumræðu undanfarið í tengslum við kjarabaráttu grunnskólakennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×