Innlent

Sprunginn meirihluti í Eyjum

Meirihlutasamstarfi Vestmannaeyjalistans og Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Vestmannaeyja var slitið á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í gærkvöld. Í bæjarstjórn eru þrír fulltrúar V-lista, þrír frá Sjálfstæðisflokki og einn frá Framsóknarflokki. Í bókun Lúðvíks Bergvinssonar, oddvita V-listans, kemur fram að samstarfinu hafi verið slitið í kjölfar trúnaðarbrests sem upp kom. Er þar vísað til viljayfirlýsingar sem Andrés Sigmundsson, fulltrúi Framsóknarflokks, undirritaði um kaup Vestmannaeyjabæjar á Fiskiðjuhúsinu í Vestmannaeyjum. "Þetta er pólitískt áfall sem kemur algjörlega í bakið á mér. Ég áskil mér allan rétt til að fjalla um málið síðar," sagði Andrés eftir fundinn. Viðræður um nýjan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Vestmannaeyjalista hófust þegar í gærkvöld. Arnar Sigmundsson, oddviti sjálfstæðismanna, sagði að ekki væri farið að ræða mögulega skiptingu embætta, en lagði hins vegar áherslu á hversu mikilvægt væri að þessi tvö stóru framboð sem væru með sex af sjö bæjarfulltrúum næðu saman um stjórn bæjarfélagsins. Lúðvík Bergvinsson sagðist gera ráð fyrir að menn næðu fljótt saman um nýjan meirihluta. "Enda er mikil krafa um það eftir síðustu uppákomu að stóru öflin í bænum slíðri sverðin og taki höndum saman með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×