Hvað tekur við? 19. nóvember 2004 00:01 Hótunin um gerðardóm í lögunum á verkfall kennara virðist hafa virkað, ef marka má ummæli forustumanna samningsaðila. Þeir lýsa því ótvírætt yfir að af tvennu illu hafi þeir frekar viljað skrifa undir samning sem þeir voru óánægðir með en að eiga á hættu að gerðardómur úrskurðaði þeim í óhag. Ógnunin sem leiddi menn saman fólst í því annars vegar að kennarar óttuðust að lenda ofan í ramma samninga á almennum markaði og sveitarfélögin óttuðust að kennarar fengju meira en sveitarfélögin réðu við eða þá að hinum raunverulegu átökum yrði einfaldlega frestað um óákveðinn tíma. Þessi ógn hefur raunar verið til staðar frá því síðastliðið vor, en neyðin og ógnin við velferð 45.000 skólabarna sem skapaðist af verkfallinu sjálfu og afleiðingum þess dugði þó ekki til að fá menn til að taka þau skref sem þurfti til að ná málamiðlun. Það út af fyrir sig sýnir að lagasetningin átti fullan rétt á sér - það þurfti að knýja fram niðurstöðu. Samningamenn voru farnir að minna á Molbúana sem fóru í sameiginlegt fótabað, en gátu ekki staðið upp því þeir vissu ekki hver átti hvaða fót. Málið leystist ekki fyrr en vegfarandi sem átti leið hjá gerði sig líklegan til að lemja þá með staf sínum. Þá stukku þeir á fætur án umhugsunar. Hugsanlegt er að lögin hefðu mátt vera eitthvað öðruvísi, en slíkt er þó fræðileg spurning úr því sem komið er – þau knúðu fram samning, sem er aðalatriðið. Það hafa miklar tilfinningar losnað úr læðingi í þessu verkfalli, bæði hjá kennurum sjálfum og meðal almennings sem verið hefur óbeinn þátttakandi í þessu stríði. Fullyrt er að sjálfsmynd kennarastéttarinnar hafi beðið hnekki vegna lítilsvirðandi framkomu stjórnvalda og að margir kennarar komi með hálfum huga inn í skólana. Búið sé að gengisfella kennarastarfið og þar með framtíðarmöguleika í menntamálum þjóðarinnar. Vissulega er ýmislegt til í þessu og það er rétt að kennarastarfið er mikilvægt starf og verðskuldar að vera vel borgað. En það er hins vegar ekki boðlegt að missa umræðuna niður á eitthvert grátkórsstig þar sem ekkert má segja eða gera sem hugsanlega gæti sært tilfinningar kennara í "áfalli". Á sama hátt er brýnt að foreldrar og almenningur láti ekki pirring og reiði bitna um of á kennurum umfram það sem orðið er, þrátt fyrir það tjón sem unnið hefur verið á fjölmörgum nemendum í þessari deilu. Í skólunum er tími uppbyggingar hafinn, menn þurfa að sleikja sárin og horfa fram á veg á grundvelli þess samnings sem nú liggur fyrir. Vandamálin eru hins vegar ekki úr sögunni, síður en svo. Það er einfaldlega barnaskapur að ætla að þær hækkanir sem kennarar þó knúðu fram muni ekki verða viðmið í kröfugerð annarra hópa sem nú hafa lausa samninga. Jafnframt munu þessar hækkanir hafa áhrif á endurskoðun samninga á almennum vinnumarkaði. Tryggvi Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans óttast í Fréttablaðinu í gær um stöðugleikann í kjölfar kennarasamningsins. Aðrir kollegar hans hafa sagt svipaða hluti. Hin knýjandi spurning í dag er því hvernig tekið verður á efnahagsstjórninni í þjóðfélaginu í kjölfar kennarasamningsins. Peningamálastefnan og ríkisfjármálin eru þau tæki sem til boða standa. Seðlabankinn mun ugglaust hækka vexti þó áhrif þess á tímum frjálsra fjármagnsflutninga séu minni en áður. Ríkisstjórnin hefur boðað skattalækkanir og hún hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sem gagnrýnendur efuðust um að hægt væri að kalla aðhaldsfrumvarp. Fyrir liggur að fjárskortur er til heilbrigðismála og menntamála, þannig að óvarlegt er að höggva frekar í þann knérunn. Skilaboðin í lagasetningu stjórnarmeirihlutans á Alþingi á verkfall kennara voru þau að almannaheill krefðist þess að menn yrðu að sætta sig við minna en að fá ýtrustu óskir uppfylltar. Þessi skilaboð voru meðtekin. Framvindan hagar því nú þannig að nákvæmlega sömu skilaboð eru send stjórnarliðum á Alþingi. Almannaheill - í formi efnahagslegs stöðugleika - krefst þess að þeir skoði hvernig þeir geti gefið eftir einhverjar af sínum ýtrustu óskum og kosningaloforðum. Spurningin um skattalækkun eða e.t.v. útfærslu hennar hlýtur að koma þar við sögu. Sú útfærsla skattalækkunar sem nú er stefnt að mun lítið greiða fyrir endurskoðun samninga á almennum markaði. Önnur útfærsla gæti hins vegar gert það. Spurningin er einfaldlega hvort forustumenn stjórnarflokkanna hafi til að bera það raunsæi, sem þeir krefjast af kennum og sveitarstjórnarmönnum. Eru þeir tilbúnir til að breyta örlitið um skattakúrs til að viðhalda almannaheill? Það er spurning dagsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Fastir pennar Mest lesið Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Hótunin um gerðardóm í lögunum á verkfall kennara virðist hafa virkað, ef marka má ummæli forustumanna samningsaðila. Þeir lýsa því ótvírætt yfir að af tvennu illu hafi þeir frekar viljað skrifa undir samning sem þeir voru óánægðir með en að eiga á hættu að gerðardómur úrskurðaði þeim í óhag. Ógnunin sem leiddi menn saman fólst í því annars vegar að kennarar óttuðust að lenda ofan í ramma samninga á almennum markaði og sveitarfélögin óttuðust að kennarar fengju meira en sveitarfélögin réðu við eða þá að hinum raunverulegu átökum yrði einfaldlega frestað um óákveðinn tíma. Þessi ógn hefur raunar verið til staðar frá því síðastliðið vor, en neyðin og ógnin við velferð 45.000 skólabarna sem skapaðist af verkfallinu sjálfu og afleiðingum þess dugði þó ekki til að fá menn til að taka þau skref sem þurfti til að ná málamiðlun. Það út af fyrir sig sýnir að lagasetningin átti fullan rétt á sér - það þurfti að knýja fram niðurstöðu. Samningamenn voru farnir að minna á Molbúana sem fóru í sameiginlegt fótabað, en gátu ekki staðið upp því þeir vissu ekki hver átti hvaða fót. Málið leystist ekki fyrr en vegfarandi sem átti leið hjá gerði sig líklegan til að lemja þá með staf sínum. Þá stukku þeir á fætur án umhugsunar. Hugsanlegt er að lögin hefðu mátt vera eitthvað öðruvísi, en slíkt er þó fræðileg spurning úr því sem komið er – þau knúðu fram samning, sem er aðalatriðið. Það hafa miklar tilfinningar losnað úr læðingi í þessu verkfalli, bæði hjá kennurum sjálfum og meðal almennings sem verið hefur óbeinn þátttakandi í þessu stríði. Fullyrt er að sjálfsmynd kennarastéttarinnar hafi beðið hnekki vegna lítilsvirðandi framkomu stjórnvalda og að margir kennarar komi með hálfum huga inn í skólana. Búið sé að gengisfella kennarastarfið og þar með framtíðarmöguleika í menntamálum þjóðarinnar. Vissulega er ýmislegt til í þessu og það er rétt að kennarastarfið er mikilvægt starf og verðskuldar að vera vel borgað. En það er hins vegar ekki boðlegt að missa umræðuna niður á eitthvert grátkórsstig þar sem ekkert má segja eða gera sem hugsanlega gæti sært tilfinningar kennara í "áfalli". Á sama hátt er brýnt að foreldrar og almenningur láti ekki pirring og reiði bitna um of á kennurum umfram það sem orðið er, þrátt fyrir það tjón sem unnið hefur verið á fjölmörgum nemendum í þessari deilu. Í skólunum er tími uppbyggingar hafinn, menn þurfa að sleikja sárin og horfa fram á veg á grundvelli þess samnings sem nú liggur fyrir. Vandamálin eru hins vegar ekki úr sögunni, síður en svo. Það er einfaldlega barnaskapur að ætla að þær hækkanir sem kennarar þó knúðu fram muni ekki verða viðmið í kröfugerð annarra hópa sem nú hafa lausa samninga. Jafnframt munu þessar hækkanir hafa áhrif á endurskoðun samninga á almennum vinnumarkaði. Tryggvi Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans óttast í Fréttablaðinu í gær um stöðugleikann í kjölfar kennarasamningsins. Aðrir kollegar hans hafa sagt svipaða hluti. Hin knýjandi spurning í dag er því hvernig tekið verður á efnahagsstjórninni í þjóðfélaginu í kjölfar kennarasamningsins. Peningamálastefnan og ríkisfjármálin eru þau tæki sem til boða standa. Seðlabankinn mun ugglaust hækka vexti þó áhrif þess á tímum frjálsra fjármagnsflutninga séu minni en áður. Ríkisstjórnin hefur boðað skattalækkanir og hún hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sem gagnrýnendur efuðust um að hægt væri að kalla aðhaldsfrumvarp. Fyrir liggur að fjárskortur er til heilbrigðismála og menntamála, þannig að óvarlegt er að höggva frekar í þann knérunn. Skilaboðin í lagasetningu stjórnarmeirihlutans á Alþingi á verkfall kennara voru þau að almannaheill krefðist þess að menn yrðu að sætta sig við minna en að fá ýtrustu óskir uppfylltar. Þessi skilaboð voru meðtekin. Framvindan hagar því nú þannig að nákvæmlega sömu skilaboð eru send stjórnarliðum á Alþingi. Almannaheill - í formi efnahagslegs stöðugleika - krefst þess að þeir skoði hvernig þeir geti gefið eftir einhverjar af sínum ýtrustu óskum og kosningaloforðum. Spurningin um skattalækkun eða e.t.v. útfærslu hennar hlýtur að koma þar við sögu. Sú útfærsla skattalækkunar sem nú er stefnt að mun lítið greiða fyrir endurskoðun samninga á almennum markaði. Önnur útfærsla gæti hins vegar gert það. Spurningin er einfaldlega hvort forustumenn stjórnarflokkanna hafi til að bera það raunsæi, sem þeir krefjast af kennum og sveitarstjórnarmönnum. Eru þeir tilbúnir til að breyta örlitið um skattakúrs til að viðhalda almannaheill? Það er spurning dagsins.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun