Og fjallið það öskrar 15. janúar 2005 00:01 Það var dimmt yfir Álftafirði fyrri part viku. Kalt í veðri og strekkingsvindur. Alhvítur snjórinn hafði ekki aðeins lagst af þunga yfir byggðina heldur líka á sálir fólksins. Það minntist hamfaranna ógurlegu 1995. Hafði ekki séð annan eins snjó síðan þá. Og ekki var nóg með að erfiðar hugsanir leituðu á fólk vegna veðursins, náttúran lét finna áþreifanlega fyrir sér. Snjóflóð féllu og tepptu vegi og Súðavík var símasambandslaus í nærri hálfan sólarhring. Sigríður Rannveig Jónsdóttir, sem missti eins árs dóttur sína og tengdaforeldra fyrir tíu árum, ók fram á flóð sem fallið hafði á veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur seinni part mánudags. Hún var á leið heim frá Ísafirði þar sem hún vinnur. Vanlíðanin steyptist yfir hana og hún stífnaði undir stýri. Hélt reyndar að hún myndi ekki lifa þetta af. Vegagerðin var snör á vettvang, ruddi flóðinu frá og hleypti bílum sem biðu í gegn. Veginum var svo lokað og hann ekki opnaður aftur fyrr en morguninn eftir. Um sama leyti og Sigríður Rannveg kom að flóðinu frá Ísafirði óku blaðamaður og ljósmyndari að því Súðavíkurmegin. Snjórinn sem áður hafði hvílt í fjallinu en ruddi sér braut niður hlíðina skildi fólkið að sem ætlaði að hittast morguninn eftir. Óttinn við að fleiri flóð myndu falla, hugsunin um að liggja undir snjófarginu, jafnvel hafa sveipast með því í sjó fram, leitaði á huga þeirra sem komu að. Óveðursskýin hrannast upp Óvenjudjúp lægð kom upp að landinu að morgni sunnudagsins 15. janúar 1995 og gekk norður með austurströndinni. Vindurinn var gríðarlegur og til marks um það hafði vindhraði ekki áður mælst jafn mikill á Hveravöllum og þennan dag. Um leið var fannfergið ógurlegt. Vindurinn sneri sér úr austri í norðvestan og skilyrði urðu öll hin fátíðustu. Snjór safnaðist upp í fjallshlíðarnar ofan Súðavíkur sem aldrei fyrr. Um þetta voru sérfræðingar Veðurstofunnar og heimamenn í Súðavík meðvitaðir. Snjóflóðahætta vofði yfir staðnum og afráðið var að gera fólki í tilteknum húsum að yfirgefa þau. Við þá ákvörðun var stuðst við þá þekkingu og reynslu sem menn höfðu af þeim snjóflóðum sem fallið höfðu úr Súðavíkurhlíð, Traðargili og Sauradal, þekktum farvegum snjóflóða í Álftafirði. Heimildir voru til um snjóflóð sem fallið höfðu ofan byggðarinnar í Súðavík allt frá árinu 1884. Árið 1973 féll flóð úr Traðargili og braut hlöðu. Árið 1983 féll flóð úr Súðavíkurhlíð sem hafnaði á fjárhúsi. 50 fjár drápust. Í desember 1994 féll flóð úr Traðargili á bæinn Saura. Einn maður var innandyra og bjargaðist talsvert þrekaður. Íbúðarhúsið og tvö fjárhús eyðilögðust og fimm kindur drápust. Hið ótrúlega gerðist Það snjóaði allan sunnudaginn fyrir áratug og vindurinn blés af kappi. Þegar vindáttin breyttist um kvöldið vofði hættan yfir. Sveitarstjórinn í Súðavík var í símasambandi við sýslumann og sérfræðinga á Veðurstofunni og að ganga tvö um nóttina var orðið ljóst að mikil hætta var á flóði. Hús voru rýmd þar sem hættan var talin mest. Það var undan Traðargili, á þeim slóðum sem flóð hafði fallið tæpum mánuði áður. Atburðir þeir sem síðar urðu kenna mönnum að aldrei er of varlega farið. Sagan má sín lítils þegar óblíð náttúran er annars vegar. Þegar klukkan var sautján mínútur gengin í sjö að morgni mánudagsins 16. janúar 1995 féll gríðarlegt snjóflóð úr Súðavíkurhlíð. Flóðið ruddi sér braut yfir 16 íbúðarhús. Í þeim voru alls 48 manns. 22 sluppu ómeiddir, 12 slösuðust. 14 létust. Um kvöldið féll annað flóð, að þessu sinni úr Traðargili, og ruddist yfir þrjú hús. Enginn var innandyra. Snjóflóð höfðu áður fallið niður báða farvegina; bæði úr Súðavíkurhlíð og Traðargili. Þau höfðu aldrei náð jafn langt, aldrei verið jafn ógurleg. Aldrei hrifið með sér mannslíf. Leit og björgun hefjast Björgunarstörf hófust þegar í stað og voru unnin af heimamönnum einum fyrstu klukkustundirnar þar sem óveðrið teppti samgöngur til Súðavíkur. Skyggnið var lítið og aðstæður allar hinar verstu. Miðstöð björgunarstarfs og aðhlynningar slasaðra var komið upp í frystihúsinu og þaðan var aðgerðum stjórnað. Ástandið var skelfilegt. Margra var saknað og margir voru alvarlega slasaðir. Flestir voru klæðalitlir enda undir hlýjum sængum þegar flóðið kom. Aðhlynning slasaðra var erfið og Sigríður Hrönn Elíasdóttir, sem var sveitarstjóri í Súðavík veturinn 1995, minnir á það í viðtali við Fréttablaðið í dag að hvorki var læknir né hjúkrunarfræðingur á staðnum. Ekki heldur Rauðakrossdeild. Heimamenn sinntu öllu leitar- og hjálparstarfi fyrstu klukkustundirnar en klukkan tíu um morguninn lagðist Fagranesið að bryggju með á fimmta tug björgunarsveitarmanna, lækna og hjúkrunarfræðinga. Að auki voru fjórir leitarhundar með í för sem skiptu sköpum við björgunarstörfin. "Heimamenn voru uppgefnir. Þeir höfðu verið úti í kolvitlausu veðri og það þurfti að skipta og koma skipulagi á hlutina. Allir höfðu verið á útopnu," segir Sigríður Hrönn. Atburðirnir spyrjast út Fréttir af snjóflóðinu í Súðavík tóku að berast milli manna víðs vegar um land fljótlega eftir að það féll. Tíðindin bárust símleiðis fyrstu klukkustundirnar því Almannavarnanefndin vestra meinaði fréttaflutning fjölmiðla af atburðunum þar til klukkan hálf ellefu. Voru þá rúmar fjórar klukkustundir liðnar frá því flóðið féll. Engu að síður var það á margra vitorði og erlendar fréttastofur höfðu meira að segja haft spurnir af hörmungunum. Tíðindin höfðu meðal annars borist út á sjó og til eyrna áhafnarinnar á togaranum Bessa. Þar um borð voru meðal annarra Súðvíkingarnir Hafsteinn Númason og Ómar Már Jónsson. Fyrstu upplýsingar voru óljósar og misvísandi. Um tíma héldu þeir að um lítið flóð væri að ræða en síðar skildist þeim að enn stærri hluti byggðarinnar hefði farið undir en raunin var. Báðir áttu Hafsteinn og Ómar fólk í Súðavík; Hafsteinn eiginkonu og þrjú lítil börn og Ómar foreldra, systur og hennar fjölskyldu. Börn Hafsteins og konu hans létust, systurdóttir Ómars lést. Átta af þeim fjórtán sem létust í snjóflóðunum í Súðavík voru börn. Leitað í 36 tíma Ekkert lát var á óveðrinu. Áfram var leitað af kappi í snjófarginu og rústum húsa. Liðsauki bættist leitarmönnum með fleiri skipum og íbúar Súðavíkur voru fluttir sjóleiðina til Ísafjarðar. Fyrst eftir að flóðið féll fundust fjórir á lífi. Fyrri part mánudagsins fundust ellefu, þar af fimm látnir. Á mánudagskvöldinu fundust fjórir. Þrír voru látnir en fjórtán ára stúlka var á lífi. Hún hafði legið undir snjónum í sextán klukkustundir. Aðfaranótt þriðjudagsins fannst einn látinn en undir morgun gerðist nokkuð sem margir töldu kraftaverk. Tíu ára piltur fannst á lífi. Hann hafði þá verið í snjónum í 23 klukkustundir. Á þriðjudeginum fundust þeir fimm síðustu sem saknað var, allir látnir. Leit stóð linnulaust í einn og hálfan sólarhring frá því að flóðið féll og þar til yfir lauk. Á þriðja hundrað manns kom að leit og björgun og vann við gríðarlega erfiðar aðstæður; í aftakaveðri, rafmagnsleysi og með hættuna á frekari snjóflóðum yfir höfði sér. Ný Súðavík rís Loks rofaði til. Fólk reyndi að ná áttum en gekk misjafnlega. Áfallið var skelfilegra en orð fá lýst. Við tók óvissa um framtíð byggðar í Súðavík, óvissa um hagi fjölda fjölskyldna, óvissa um lífið í kjölfar hamfaranna og þess sára missis sem svo margir urðu fyrir. Þjóðin fylgdist með og reyndi að leggja sitt af mörkum. Afráðið var að flytja byggðina í Súðavík innar í fjörðinn og reisa þar nýtt þorp. Þeir sem vit hafa á og að komu segja þann gjörning þrekvirki. Slíkt hafði aldrei verið gert og verður sjálfsagt aldrei gert aftur. Áfram stendur gamla byggðin og þar er dvalið í hverju húsi yfir sumarmánuðina. Í gömlu byggðinni miðri stendur minningarreitur um þá sem fórust og verður hann vígður í sumar, þegar grasið er grænt. Fyrirsögnin er fengin úr lagi Bubba Morthens, Með vindinum kemur kvíðinn. Fréttir Innlent Snjóflóðin í Súðavík Veður Mest lesið Dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás Innlent Þurftu að búa í næstu götu við morðingja bróður síns Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Vildi drepa soninn svo hann kæmist til himna Innlent Alræmdi túristahópurinn tók líka yfir pítsustað Innlent Fangi lést á Litla-Hrauni Innlent Gefa út gula viðvörun fyrir allt landið vegna norðan áhlaups Veður „Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál“ Innlent Áfrýjun tólf ára fangelsisdóms vegna sjö þúsund króna hafnað Erlent Lentu í dularfullum símatruflunum í Bratislava fyrir fimm árum Innlent Fleiri fréttir „Þetta mál hélt fyrir mér vöku í tvo mánuði“ Fólk dvelji ekki í herbergjum með glugga í átt að Eyrarfjalli Lentu í dularfullum símatruflunum í Bratislava fyrir fimm árum Fangi lést á Litla-Hrauni Forsætisráðherra segir málið hugarburð, Píratar vilja rannsókn „Hefði verið ágætt að fresta þessu veðri fram yfir áramót“ „Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál“ Fjöldahjálparstöðvar opnaðar vegna skriðuhættu Súðavíkurhlíð líka lokað og fjöldahjálparstöðvar reyndust óþarfar Jón muni ekki koma nálægt meðferð „hvalamálsins“ Stór aurskriða féll við Eyrarhlíð Þurftu að búa í næstu götu við morðingja bróður síns Vísbendingar um að andleg heilsa barna á Íslandi hafi batnað Móðirin ætlar að áfrýja „Sænska ástandið“ orðið að norrænu Segist ekki skulda dómsmálaráðherra skýringar Viðhorf til kvenna í leiðtogastörfum versnar Bein útsending: Kosningafundur Sambands íslenskra sveitarfélaga Kynna niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar Tvö vilja í Endurupptökudóm Kvarta til umboðsmanns Alþingis vegna blóðmerahalds Dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás Ferðaðist frá Flateyri til Ísafjarðar til að fylla á vatnsflöskur Skriðuföll á Vestfjörðum og lokað fyrir vatnið á Flateyri Neysluvatnið í Bolungarvík drullugt og í ólagi Vildi drepa soninn svo hann kæmist til himna Loka fyrir vatnið á Flateyri eftir skriðu Opna sundlaugina í Grindavík á ný Þeim fækkar sem lesa og skrifa skilaboð við akstur Varað við vatnavöxtum og skriðuföllum: Vegir lokuðust á Vestfjörðum Sjá meira
Það var dimmt yfir Álftafirði fyrri part viku. Kalt í veðri og strekkingsvindur. Alhvítur snjórinn hafði ekki aðeins lagst af þunga yfir byggðina heldur líka á sálir fólksins. Það minntist hamfaranna ógurlegu 1995. Hafði ekki séð annan eins snjó síðan þá. Og ekki var nóg með að erfiðar hugsanir leituðu á fólk vegna veðursins, náttúran lét finna áþreifanlega fyrir sér. Snjóflóð féllu og tepptu vegi og Súðavík var símasambandslaus í nærri hálfan sólarhring. Sigríður Rannveig Jónsdóttir, sem missti eins árs dóttur sína og tengdaforeldra fyrir tíu árum, ók fram á flóð sem fallið hafði á veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur seinni part mánudags. Hún var á leið heim frá Ísafirði þar sem hún vinnur. Vanlíðanin steyptist yfir hana og hún stífnaði undir stýri. Hélt reyndar að hún myndi ekki lifa þetta af. Vegagerðin var snör á vettvang, ruddi flóðinu frá og hleypti bílum sem biðu í gegn. Veginum var svo lokað og hann ekki opnaður aftur fyrr en morguninn eftir. Um sama leyti og Sigríður Rannveg kom að flóðinu frá Ísafirði óku blaðamaður og ljósmyndari að því Súðavíkurmegin. Snjórinn sem áður hafði hvílt í fjallinu en ruddi sér braut niður hlíðina skildi fólkið að sem ætlaði að hittast morguninn eftir. Óttinn við að fleiri flóð myndu falla, hugsunin um að liggja undir snjófarginu, jafnvel hafa sveipast með því í sjó fram, leitaði á huga þeirra sem komu að. Óveðursskýin hrannast upp Óvenjudjúp lægð kom upp að landinu að morgni sunnudagsins 15. janúar 1995 og gekk norður með austurströndinni. Vindurinn var gríðarlegur og til marks um það hafði vindhraði ekki áður mælst jafn mikill á Hveravöllum og þennan dag. Um leið var fannfergið ógurlegt. Vindurinn sneri sér úr austri í norðvestan og skilyrði urðu öll hin fátíðustu. Snjór safnaðist upp í fjallshlíðarnar ofan Súðavíkur sem aldrei fyrr. Um þetta voru sérfræðingar Veðurstofunnar og heimamenn í Súðavík meðvitaðir. Snjóflóðahætta vofði yfir staðnum og afráðið var að gera fólki í tilteknum húsum að yfirgefa þau. Við þá ákvörðun var stuðst við þá þekkingu og reynslu sem menn höfðu af þeim snjóflóðum sem fallið höfðu úr Súðavíkurhlíð, Traðargili og Sauradal, þekktum farvegum snjóflóða í Álftafirði. Heimildir voru til um snjóflóð sem fallið höfðu ofan byggðarinnar í Súðavík allt frá árinu 1884. Árið 1973 féll flóð úr Traðargili og braut hlöðu. Árið 1983 féll flóð úr Súðavíkurhlíð sem hafnaði á fjárhúsi. 50 fjár drápust. Í desember 1994 féll flóð úr Traðargili á bæinn Saura. Einn maður var innandyra og bjargaðist talsvert þrekaður. Íbúðarhúsið og tvö fjárhús eyðilögðust og fimm kindur drápust. Hið ótrúlega gerðist Það snjóaði allan sunnudaginn fyrir áratug og vindurinn blés af kappi. Þegar vindáttin breyttist um kvöldið vofði hættan yfir. Sveitarstjórinn í Súðavík var í símasambandi við sýslumann og sérfræðinga á Veðurstofunni og að ganga tvö um nóttina var orðið ljóst að mikil hætta var á flóði. Hús voru rýmd þar sem hættan var talin mest. Það var undan Traðargili, á þeim slóðum sem flóð hafði fallið tæpum mánuði áður. Atburðir þeir sem síðar urðu kenna mönnum að aldrei er of varlega farið. Sagan má sín lítils þegar óblíð náttúran er annars vegar. Þegar klukkan var sautján mínútur gengin í sjö að morgni mánudagsins 16. janúar 1995 féll gríðarlegt snjóflóð úr Súðavíkurhlíð. Flóðið ruddi sér braut yfir 16 íbúðarhús. Í þeim voru alls 48 manns. 22 sluppu ómeiddir, 12 slösuðust. 14 létust. Um kvöldið féll annað flóð, að þessu sinni úr Traðargili, og ruddist yfir þrjú hús. Enginn var innandyra. Snjóflóð höfðu áður fallið niður báða farvegina; bæði úr Súðavíkurhlíð og Traðargili. Þau höfðu aldrei náð jafn langt, aldrei verið jafn ógurleg. Aldrei hrifið með sér mannslíf. Leit og björgun hefjast Björgunarstörf hófust þegar í stað og voru unnin af heimamönnum einum fyrstu klukkustundirnar þar sem óveðrið teppti samgöngur til Súðavíkur. Skyggnið var lítið og aðstæður allar hinar verstu. Miðstöð björgunarstarfs og aðhlynningar slasaðra var komið upp í frystihúsinu og þaðan var aðgerðum stjórnað. Ástandið var skelfilegt. Margra var saknað og margir voru alvarlega slasaðir. Flestir voru klæðalitlir enda undir hlýjum sængum þegar flóðið kom. Aðhlynning slasaðra var erfið og Sigríður Hrönn Elíasdóttir, sem var sveitarstjóri í Súðavík veturinn 1995, minnir á það í viðtali við Fréttablaðið í dag að hvorki var læknir né hjúkrunarfræðingur á staðnum. Ekki heldur Rauðakrossdeild. Heimamenn sinntu öllu leitar- og hjálparstarfi fyrstu klukkustundirnar en klukkan tíu um morguninn lagðist Fagranesið að bryggju með á fimmta tug björgunarsveitarmanna, lækna og hjúkrunarfræðinga. Að auki voru fjórir leitarhundar með í för sem skiptu sköpum við björgunarstörfin. "Heimamenn voru uppgefnir. Þeir höfðu verið úti í kolvitlausu veðri og það þurfti að skipta og koma skipulagi á hlutina. Allir höfðu verið á útopnu," segir Sigríður Hrönn. Atburðirnir spyrjast út Fréttir af snjóflóðinu í Súðavík tóku að berast milli manna víðs vegar um land fljótlega eftir að það féll. Tíðindin bárust símleiðis fyrstu klukkustundirnar því Almannavarnanefndin vestra meinaði fréttaflutning fjölmiðla af atburðunum þar til klukkan hálf ellefu. Voru þá rúmar fjórar klukkustundir liðnar frá því flóðið féll. Engu að síður var það á margra vitorði og erlendar fréttastofur höfðu meira að segja haft spurnir af hörmungunum. Tíðindin höfðu meðal annars borist út á sjó og til eyrna áhafnarinnar á togaranum Bessa. Þar um borð voru meðal annarra Súðvíkingarnir Hafsteinn Númason og Ómar Már Jónsson. Fyrstu upplýsingar voru óljósar og misvísandi. Um tíma héldu þeir að um lítið flóð væri að ræða en síðar skildist þeim að enn stærri hluti byggðarinnar hefði farið undir en raunin var. Báðir áttu Hafsteinn og Ómar fólk í Súðavík; Hafsteinn eiginkonu og þrjú lítil börn og Ómar foreldra, systur og hennar fjölskyldu. Börn Hafsteins og konu hans létust, systurdóttir Ómars lést. Átta af þeim fjórtán sem létust í snjóflóðunum í Súðavík voru börn. Leitað í 36 tíma Ekkert lát var á óveðrinu. Áfram var leitað af kappi í snjófarginu og rústum húsa. Liðsauki bættist leitarmönnum með fleiri skipum og íbúar Súðavíkur voru fluttir sjóleiðina til Ísafjarðar. Fyrst eftir að flóðið féll fundust fjórir á lífi. Fyrri part mánudagsins fundust ellefu, þar af fimm látnir. Á mánudagskvöldinu fundust fjórir. Þrír voru látnir en fjórtán ára stúlka var á lífi. Hún hafði legið undir snjónum í sextán klukkustundir. Aðfaranótt þriðjudagsins fannst einn látinn en undir morgun gerðist nokkuð sem margir töldu kraftaverk. Tíu ára piltur fannst á lífi. Hann hafði þá verið í snjónum í 23 klukkustundir. Á þriðjudeginum fundust þeir fimm síðustu sem saknað var, allir látnir. Leit stóð linnulaust í einn og hálfan sólarhring frá því að flóðið féll og þar til yfir lauk. Á þriðja hundrað manns kom að leit og björgun og vann við gríðarlega erfiðar aðstæður; í aftakaveðri, rafmagnsleysi og með hættuna á frekari snjóflóðum yfir höfði sér. Ný Súðavík rís Loks rofaði til. Fólk reyndi að ná áttum en gekk misjafnlega. Áfallið var skelfilegra en orð fá lýst. Við tók óvissa um framtíð byggðar í Súðavík, óvissa um hagi fjölda fjölskyldna, óvissa um lífið í kjölfar hamfaranna og þess sára missis sem svo margir urðu fyrir. Þjóðin fylgdist með og reyndi að leggja sitt af mörkum. Afráðið var að flytja byggðina í Súðavík innar í fjörðinn og reisa þar nýtt þorp. Þeir sem vit hafa á og að komu segja þann gjörning þrekvirki. Slíkt hafði aldrei verið gert og verður sjálfsagt aldrei gert aftur. Áfram stendur gamla byggðin og þar er dvalið í hverju húsi yfir sumarmánuðina. Í gömlu byggðinni miðri stendur minningarreitur um þá sem fórust og verður hann vígður í sumar, þegar grasið er grænt. Fyrirsögnin er fengin úr lagi Bubba Morthens, Með vindinum kemur kvíðinn.
Fréttir Innlent Snjóflóðin í Súðavík Veður Mest lesið Dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás Innlent Þurftu að búa í næstu götu við morðingja bróður síns Innlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Vildi drepa soninn svo hann kæmist til himna Innlent Alræmdi túristahópurinn tók líka yfir pítsustað Innlent Fangi lést á Litla-Hrauni Innlent Gefa út gula viðvörun fyrir allt landið vegna norðan áhlaups Veður „Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál“ Innlent Áfrýjun tólf ára fangelsisdóms vegna sjö þúsund króna hafnað Erlent Lentu í dularfullum símatruflunum í Bratislava fyrir fimm árum Innlent Fleiri fréttir „Þetta mál hélt fyrir mér vöku í tvo mánuði“ Fólk dvelji ekki í herbergjum með glugga í átt að Eyrarfjalli Lentu í dularfullum símatruflunum í Bratislava fyrir fimm árum Fangi lést á Litla-Hrauni Forsætisráðherra segir málið hugarburð, Píratar vilja rannsókn „Hefði verið ágætt að fresta þessu veðri fram yfir áramót“ „Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál“ Fjöldahjálparstöðvar opnaðar vegna skriðuhættu Súðavíkurhlíð líka lokað og fjöldahjálparstöðvar reyndust óþarfar Jón muni ekki koma nálægt meðferð „hvalamálsins“ Stór aurskriða féll við Eyrarhlíð Þurftu að búa í næstu götu við morðingja bróður síns Vísbendingar um að andleg heilsa barna á Íslandi hafi batnað Móðirin ætlar að áfrýja „Sænska ástandið“ orðið að norrænu Segist ekki skulda dómsmálaráðherra skýringar Viðhorf til kvenna í leiðtogastörfum versnar Bein útsending: Kosningafundur Sambands íslenskra sveitarfélaga Kynna niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar Tvö vilja í Endurupptökudóm Kvarta til umboðsmanns Alþingis vegna blóðmerahalds Dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás Ferðaðist frá Flateyri til Ísafjarðar til að fylla á vatnsflöskur Skriðuföll á Vestfjörðum og lokað fyrir vatnið á Flateyri Neysluvatnið í Bolungarvík drullugt og í ólagi Vildi drepa soninn svo hann kæmist til himna Loka fyrir vatnið á Flateyri eftir skriðu Opna sundlaugina í Grindavík á ný Þeim fækkar sem lesa og skrifa skilaboð við akstur Varað við vatnavöxtum og skriðuföllum: Vegir lokuðust á Vestfjörðum Sjá meira