Erlent

Komin mynd á utanríkisstefnu BNA

Nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna útnefnir sex lönd sem vígi helstu harðstjórna heimsins og telur að Bandaríkin þurfi að beina sjónum sínum þangað. Yfirlýsingin þykir gefa allgóða vísbendingu um utanríkisstefnu Bandaríkjanna næstu fjögur árin. Condoleeza Rice hefur í dag og í gær setið fyrir svörum í Öldungadeild Bandaríkjaþings í tengslum við embættistöku sína sem utanríkisráðherra. Rice þótti standa sig með afbrigðum vel í erfiðri yfirheyrslu sem stóð marga klukkutíma en þar spurðu þingmenn hana meðal annars spjörunum úr um Íraksstríðið og réttlætingu ríkisstjórnarinnar á því. Rice stóð af sér alla gagnrýni og þingið samþykkti nú síðdegis skipun hennar í embætti. Rice er þar með orðin fyrsta svarta konan til að gegna embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem jafnan er talið eitt af valdamestu embættum heimsins. Bush Bandaríkjaforseti verður hins vegar svarinn í embætti, annað kjörtímabilið í röð, á morgun. Það vakti mikla athygli að í yfirheyrslunni yfir Rice í gær taldi hún sérstaka ástæðu til að telja upp fimm lönd sem hún sagði vígi helstu harðstjórna heimsins. Þessi harðstjórnarveldi væru: Kúba, Íran, Norður-Kórea, Zimbabwe, Búrma eða Myanmanr og Hvíta-Rússland. Þessi upptalnig Rice minnir óneitanlega á illræmdan lista Bush yfir öxulveldi hins illa en á þeim lista voru Írak, Íran og Norður-Kórea. Það er ekki talin vera nein tilviljun að Rice nefnir þessi sex lönd nú. Því er haldið fram að innrás í Íran sé þegar á teikniborði Bandaríkjastjórnar og fréttaskýrendur telja að með því að nefna þessi sex harðstjórnarveldi sé Rice að vara stjórnvöld þessara landa við því að þeirra gætu beðið sömu örlög og Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×