Erlent

ESB hótar lagasetningu

Evrópusambandið þrýstir nú á matvælafyrirtæki að hætta að beina auglýsingum um skyndibita og aðra óhollustu til barna. Einnig vill sambandið að merkingar á matvælum verði skýrari þannig að það þurfi ekki doktorspróf í efnafræði til að skilja þær, eins og Markos Kyprianou, yfirmaður heilbrigðis- og neytendamála hjá Evrópusambandinu, komst að orði. Fréttastofa BBC greinir frá þessu. Kyprianou segir að ef matvælafyrirtæki verði ekki við þessum kröfum muni Evrópusambandið setja lög sem tryggi að kröfurnar verði uppfylltar. Sérfræðingar telja nú að um 25 prósent barna innan Evrópusambandsins eigi við offituvandamál að stríða. Kyprianou segir að þar til nýlega hafi Evrópubúar litið á offitu sem vandamál Bandaríkjamanna. "Við gerðum alltaf hálfgert grín að Bandaríkjamönnum," segir hann. "Núna er offita hins vegar orðin evrópskt vandamál og við því þurfum við að bregðast." Forsvarsmenn Evrópusambandsins og matvælafyrirtækja hafa fundað óformlega um málið í nokkra mánuði. Kyprianou segir að í mars muni hann leggja fram áætlun fyrir áframhaldandi viðræður. Viðbrögð matvælafyrirtækjanna hafi verið mjög góð fram að þessu. Matvælafyrirtæki í Bandaríkjunum hafa þegar látið undan þrýstingi þarlendra yfirvalda. Fyrirtæki hafa tekið ákveðnar auglýsingar úr umferð eða breytt þeim þannig að þær veki síður áhuga barna. Sem dæmi hefur Kraft-fyrirtækið dregið úr auglýsingum fyrir Oreo-kex og gert merkingar hollari matvæla skýrari. Stjórnvöld víða um Evrópu hafa lýst miklum áhyggjum vegna offituvandamálsins. Áhyggjurnar hafa einnig gert vart við sig hérlendis. Skammt er síðan nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram þingsályktunartillögu um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru þar sem fela á heilbrigðisráðherra að ná samstöðu með framleiðendum og innflytjendum um að slíkar vörur séu ekki auglýstar í sjónvarpi fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×