Innlent

Ástandið í Írak ógnvekjandi

Ástandið á götum Íraks er ógnvekjandi. Þar er í raun stríðsástand og byssuskot heyrast nánast hvert sem er farið. Þetta segir Jón Ársæll Þórðarson dagskrárgerðarmaður sem er nýkominn frá Írak.  Þeir eru ekki margir Íslendingarnir sem verið hafa í Írak frá því að stríðið þar hófst. Jón Ársæll var þar á ferð í vikunni ásamt Inga Ragnari Ingasyni myndatökumanni og hann segir ástandið eldfimt. Bandaríkjamenn séu undir daglegum, stöðugum árásum og fólk sé hrætt og taugaveiklað. Í Bagdad þar sem þeir félagar voru heyrast skothvellir nánast hvert sem farið er. Jón og Ingi voru á ferð með bandarískum hermönnum og bjuggu við sömu aðstæður og þeir. Í eyðimörkinni er ískalt á næturnar og heitt í sólinni yfir daginn. Þrátt fyrir ástandið segist Jón ekki hafa haft þá tilfinningu að hann væri í hættu. Aðspurður hvernig tilfinningin sé að vera á svona átakasvæði segir Jón það fyrst og fremst vera óöryggi. Þeir Ingi hafi hins vegar reynt að einbeita sér að verkefni sínu: að fylgjast með liðþjálfanum Steinunni Truesdale sem er frá Keflavík. Hún slasaðist í haust þegar bíll hennar varð fyrir sprengju og er að bíða eftir að komast heim. Jón segir fjölda augnablika sitja eftir í huga sér eftir ferðina. Ferðin heim hafi t.a.m. verið ævintýraleg því með í för hafi verið lík bandarísks hermanns sem fórst í vikunni og hermennirnir í vélinni hafi verið grátandi. Þáttur Jóns Ársæls um ferðina til Íraks er á dagskrá Stöðvar 2 annað kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×