Erlent

Ekki vitað um 30 kíló af plútóníum

Stjórnendur kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield í Bretlandi geta ekki gert grein fyrir því hvað varð af 30 kílóum af plútóníum sem koma ekki fram í tölum um birgðahald. Stjórnendur Sellafield segja þetta innan alþjóðlegra viðmiðana um eðlilegt misræmi magns þess efnis sem mælt er inn í stöðina og talna í birgðahaldi síðar í vinnsluferlinu. Sérfræðingar í kjarnorkumálum sem The Times ræddi við sögðu hins vegar ástæðu til að fylgjast vel með málinu. "Þeir segja þetta vera bókhaldsvandamál en ég hefði átt von á að þeir tækju á þessu af meiri alvöru í því andrúmslofti ótta um hryðjuverk sem við búum við," sagði John Large í viðtali við The Times. Að því er fram kom í blaðinu geta stjórnendur Sellafield ekki gert grein fyrir 50 kílóum sem týnst hafa við birgðahald síðasta áratuginn. "Þetta er mjög alvarlegt mál," segir Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra. "Það vekur spurningar um öryggismálin og hvað er þarna á ferðinni. Það er ekki hægt að segja mikið um þetta á þessari stundu en við höfum óskað eftir upplýsingum frá breskum stjórnvöldum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×