Innlent

Borgin hafnar túlkaþjónustu

Borgaryfirvöld hafa hafnað beiðni Félags heyrnarlausra um að viðurkennd verði skylda Reykjavíkurborgar til að tryggja endurgjaldslausa túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa foreldra grunnskólabarna. Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, segist ekki sætta sig við niðurstöðuna. Líklega verði farið með málið fyrir dómstóla. Í umsögn Kristbjargar Stephensen, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra, segir að síðastliðið haust hafi Fræðslumiðstöð ákvarðað um að borgin greiddi ekki fyrir túlkaþjónustu fyrir heyrnalausa eða heyrnarskerta foreldra. Því væri litið á erindið frá Félagi heyrnarlausra nú sem beiðni um endurupptöku þeirrar ákvörðunar. Félag heyrnarlausra telur að samkvæmt grunnskólalögum verði borgaryfirvöld að tryggja rétt foreldra til að fylgjast með málum barnanna gagnvart skólanum. Óheimilt sé að boða til foreldrafunda sem heyrnarlausum foreldrum sé ókleift að sækja vegna þess að engin túlkaþjónusta sé fyrir hendi. Máli sínu til stuðnings vísar félagið einnig til jafnréttisákvæðis stjórnarskrárinnar. Borgarráð hefur fjallað um málið og samþykkt umsögn Kristbjargar en í henni kemur fram að ekki sé skilyrði fyrir því að taka málið upp að nýju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×