Erlent

Óvíst hversu langt herinn fer

Sýrlenskar hersveitir hörfa nú frá hlutum Líbanons en óvíst er hversu langt þær fara. Þrýstingurinn vex á Sýrlendinga að hverfa með öllu frá Líbanon og óttast er að spennan þar geti valdið uppnámi í kringum þingkosningar í maí næstkomandi. Flutningurinn hófst fyrir dögun í morgun en þetta er fimmti dagurinn sem flutningarnir standa. Nánast allar sýrlenskar hersveitir eru nú horfnar frá norðurhluta Líbanons og halda í stað þess fyrir í Beeka-dalnum, skammt frá landamærum Líbanons og Sýrlands. Brottflutningurinn er afleiðing mikilla mótmæla og andstöðu við veru hersveita Sýrlendinga í Líbanon, bæði meðal almennings í landinu og alþjóðasamfélagsins. Sýrlendingar virðast þó ekki hafa í hyggju að hverfa með öllu frá Líbanon með hersveitir sínar og víðast hvar þaðan sem sveitirnar eru horfnar eru leyniþjónustumenn ennþá eftir. Þetta þykir Bandaríkjamönnum og fleirum ekki nóg og hefur þrýstingurinn á stjórnvöld í Damaskus aukist jafnt og þétt undanfarna daga. Terja Roed-Larsen, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, væntir þess að fá endanlega tímaáætlun um brottflutning hersveitanna á næstunni, enda segir hann það í samræmi við ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Sýrlendingar og bandamenn þeirra í Líbanon vísa ályktununum hins vegar á bug, segja fáránlegt að krefjast þess að sumir fari eftir þeim á meðan aðrir, og meina þá Ísrael, geti virt hverja ályktunina á fætur annarri að vettugi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×