"Málið er ekki í mínum höndum," sagði Auðun Georg Ólafsson, nýráðinn fréttastjóri Útvarps, þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Enn hefur ekki verið gengið frá ráðningarsamningi hans, en útvarpsstjóri er í útlöndum. Auðun hefur ekki viljað ræða við fjölmiðla eftir að hann var ráðinn, en ráðningin hefur sem kunnugt er valdið miklu róti hjá starfsfólki Ríkisútvarpsins. Fréttamenn Útvarps samþykktu tvívegis vantraust á Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra og starfsmannafundur samþykkti áskorun um að hann endurskoðaði ákvörðun sína um ráðningu í starf fréttastjóra útvarpsins. Félag fréttamanna hefur skorað á Auðun Georg að taka ekki starfinu. "Ég hef ekkert að segja við fjölmiðla," sagði Auðun Georg í gær. Spurður hvort hann hygðist sleppa að ræða þetta hitamál opinberlega og skýra sína afstöðu, svaraði Auðun Georg: "Ég mun gera það síðar," og bætti við að málið væri ekki í sínum höndum og sleit samtalinu án þess að skýra það frekar.

