Erlent

Róttækar tillögur í smíðum

Róttækustu breytingar í sögu Sameinuðu þjóðanna standa fyrir dyrum. Kofi Annan vill stokka skipulag og starfsemi samtakanna upp til að bæta trúverðugleika og auka skilvirkni. Gengi breytingarnar eftir er um að ræða róttækustu uppstokkun Sameinuðu þjóðanna frá því að samtökin voru stofnuð árið 1945. Með skýrslunni, þar sem tillögurnar eru kynntar, vill Annan sætta öryggissjónarmið ríkari þjóða og áhyggjur fátækari þjóða af sjúkdómum og vesæld. Meðal þess sem hann hyggst leggja til eru að öryggisráðið verði stækkað og skipan ríkja í það breytt til að taka mið af breyttri heimsmynd. Ennfremur hyggst Annan leggja til að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna verði lögð niður í núverandi mynd og í stað hennar skipað mannréttindaráð þar sem mun færri fulltrúar sitji. Nú sitja í mannréttindanefndinni fulltrúar fjölda ríkja sem sökuð eru um mannréttindabrot og alla jafna er það einn megintilgangur þeirra að halda hlífiskyldi yfir öðrum ríkjum sem brjóta mannréttindi. Viðamiklar umbætur í rekstri samtakanna eru einnig fyrirhugaðar en spilling hefur þar löngum viðgengist sem varpað hefur skugga á trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkjamenn eru taldir hafa athugasemdir við greinar sem skylda aðildarríki samtakanna til að leggja 0,7 prósent að þjóðartekjum til þróunarmála en Bandaríkjamenn eyða sem stendur 0,1 prósenti. Einnig er búist við mótmælum þeirra við skilgreiningu á því hvenær beita megi afli eða hernaðaraðgerðum en Bandaríkjamenn vilja og telja sig hafa rétt til að grípa til einhliða aðgerða. Ennfremur er talið að arabaþjóðir séu lítt hrifnar af skilgreiningunni á hryðjuverkum en þau eru skilgreint sem hvert það verk sem er ætlað til þess að valda dauða eða verulegum líkamlegum skaða á óbreyttum borgurum. Annan kynnir tillögur sínar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×