Erlent

Hvað veldur hræringunum?

Hvað er það sem veldur hræringunum fyrir botni Miðjarðarhafs, ef ekki stríðið í Írak eins og sumir halda fram, og hvað er á seyði þar?  Í mörgum landanna fyrir botni Miðjarðarhafs er hlutfall ungs fólks gríðarhátt. Sögulega séð eru ungir karlmenn líklegistir til að krefjast róttækra breytinga og hrinda þeim í framkvæmd með hörku ef þarf. Bágt efnahagsástand og dapurlegar framtíðarhorfur auka enn á viljan til breytinga. Fræðimenn hafa sumir hverjir talið að þetta þýddi frjóan jarðveg fyrir öfgahópa sem byggði á róttækum, íslömskum kenningum með blóðugum heilögum stríðum gegn ráðamönnum og Vesturlöndum í bland. Stjórnarherrar í Miðausturlöndum vita þetta jafnvel og vestrænir vísindamenn og því höfðu þeir, og hafa, í raun aðeins um tvennt að velja: að hætta lífi og völdum með því að gera ekkert, eða bregðast við með einhverjum hætti í von um að halda í valdastóla. Þetta getur boðið upp á lýðræði, en ekki endilega. Ólgan í Líbanon gæti endað með blóðugri borgarastyrjöld - fyrir því eru vissulega fordæmi. Í Egyptalandi og Sádi-Arabíu er enn alls óvíst hversu langt ráðamenn hyggjast ganga í lýðræðsátt eða hvort orð þeirra séu orðin tóm. Hæstráðendur í þessum ríkjum gætu einnig brugðist  ókvæða við vestrænum þrýstingi og almenningur gefist upp á biðinni eftir raunverulegum endurbótum - með ógnvænlegum afleiðingum. Enn er ekkert hægt að fullyrða um framtíðina í Írak. Daglegar árásir og mannfall benda til þess að enn sé langt í land. Á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna og í Ísrael á enn eftir að leiða til lykta deilur um framtíð Jerúsalem og endanleg landamæri. Óvíst er hvað gerist til að mynda ef Hamas ber sigur út býtum í kosningum í sumar. Spennan vegna kjarnorkuáætlunar Írans er enn til staðar og Íran styður enn fjölda andspyrnu- og eða hryðjuverkasveita í Sýrlandi, Líbanon og á svæðum Palestínumanna. Klerkunum í Teheran gæti líkað lítt, virtist sem þeir væru að missa völd erlendis, og sömu sögu er að segja ef þeim líst ekki á blikuna heima fyrir. Það kraumar undir niðri fyrir botni Miðjarðarhafs og ljóst að allt getur gerst



Fleiri fréttir

Sjá meira


×