Erlent

Gagnrýnir Íslendinga í leiðara

Íslendingar eru gagnrýndir í leiðara bandaríska stórblaðsins Washington Post í dag. „Skömm Íslands“ er fyrirsögn greinarinnar þar sem segir að það hafi verið sorgardagur þegar Alþingi veitti Bobby Fischer ríkisborgararrétt. Milljónir manna lesa Washington Post daglega og leiðarar blaðsins endurspegla skoðanir áhrifaríks hóps innan bandarísks samfélags. Það hlýtur því að teljast til tíðinda þegar leiðarahöfundar blaðsins snupra Alþingi Íslendinga eins og í dag. „Það var sorgardagur í sögu Íslendinga þegar þeir ákváðu að tengjast með þessum hætti manni sem gleymdi fyrir löngu öllu sem tengist velsæmi,“ segir í ritstjórnargreinni. „Þing lýðræðisþjóðar ætti ekki að hunsa það hversu djúpt Bobby Fischer hefur sokkið síðan að hann stóð á hátindi ferils síns árið 1972. Síðan þá hefur hann breyst í gyðingahatara, leikið skák í Júgóslavíu þrátt fyrir viðskiptabann og fagnað hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin árið 2001. Í viðtali kvaðst hann vona að herinn legði Bandaríkin undir sig, lokaði bænahúsum gyðinga og lokaði þá alla inni.“ „Það er ekki rétt að leggja fæð á Fischer,“ segir enn fremur í ritstjórnargreininni. „Nær væri að vorkenna honum enda greinilega veikur maður á ferð. En það er engin ástæða fyrir Alþingi að upphefja hann með þeim hætti sem raun ber vitni - nema að það sé ætlunin að Íslendingar þurfi að skammast sín í hvert einasta skipti sem hinn nýi landi þeirra opnar munninn.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×