Innlent

Fá 4,2 milljarða í styrki

854 bændur deila með sér 4,2 milljörðum króna sem greiddir eru í beingreiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Það þýðir að hver og einn fær að meðaltali sem nemur 4,9 milljónum króna í beina ríkisstyrki á ári hverju. Nýja mjólkursamlagið Mjólka, sem hyggst framleiða osta, stendur utan þessa kerfis. Það hefur orðið til þess að Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda hefur lýst efasemdum um hvort starfsemi Mjólku sé lögleg þar sem lög kveði á um að kúabændur fái greiddar ákveðnar beingreiðslur og geti framleitt fyrir innlendan markað sem því nemur en verði að flytja umframframleiðslu til útlanda á lægra verði. "Það er mjög langsótt að hann taki eitthvað á þessu máli," segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, um dóm sem Þórólfur hefur vísað til. "Ég skil ekki alveg hvernig þeir geta dregið samnefnara þarna á milli." Haustið 2003 lét Fréttablaðið reikna fyrir sig hversu mikið þeir bændur sem fá mest og minnst í sinn hlut fengu greitt ár hvert. Þeir fimm sem hæstar greiðslur fengu voru með 15,5 milljón króna að meðaltali en bændurnir fimm á hinum endanum fengu 350 þúsund krónur að meðaltali. Síðan þá hefur bændum fækkað en greiðslur hækkað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×