Erlent

Boðað til kosninga í Bretlandi

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til þingkosninga í landinu 5. maí næstkomandi. Blair gekk á fund Elísabetar Bretlandsdrottningar í morgun og bað hana um að leysa upp þingið svo hægt yrði að ganga til kosninga. Blair sagði við fréttamenn að því loknu að hann væri stoltur af efnahagsframförum Bretlands og stöðugleika undir sinni stjórn og myndi leggja áherslu á efnahagsmálin í sinni kosningabaráttu. Verkamannaflokkur Blairs hefur 3-4 prósenta forskot á Íhaldsflokkinn samkvæmt flestum fylgiskönnunum en fylgi Blairs hefur dvínað í þeim öllum frá því í síðustu kosningum og er það fyrst og fremst rakið til Íraksstríðsins. Stjórnmálaspekingar í Bretlandi búast því við jöfnustu kosningum sem fram hafa farið í landinu í þrettán ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×