Erlent

Stefnir í spennandi kosningar

Það stefnir í spennandi kosningar í Bretlandi í næsta mánuði en Tony Blair boðaði í dag að gengið yrði til þingkosninga 5. maí. Síðustu fylgiskannanir sýna að ekki hefur verið jafnmjótt á mununum á milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins í þrettán ár. Það hefur verið opinbert leyndarmál í Bretlandi í nokkurn tíma að kosningarnar yrðu haldnar 5. maí. Tilkynna átti um dagsetninguna í gær en því var frestað um sólarhring vegna fráfalls páfa. Tony Blair forsætisráðherra gekk síðan á fund Elísabetar Bretlandsdrottningar í dag en venju samkvæmt er hún formlega beðin um að leysa upp þingið svo hægt sé að boða til kosninganna. Pólitíkin í Bretlandi hefur ekki verið ýkja spennandi síðustu árin því Verkamannaflokkur Blairs hefur haft þvílíka yfirburði í könnunum og kosningum. Nú er hins vegar að verða breyting þar á, að mestu vegna óánægju Breta með framgöngu Blairs í Íraksmálinu. Meðaltalið af nokkrum helstu fylgiskönnunum sem birst hafa í Bretlandi er þannig að Verkamannaflokkurinn er með 37% fylgi, Íhaldsflokkurinn með 34%, Frjálslyndir demókratar með heil 21% og aðrir fá 8%. Þess ber að geta að niðurstöður kannana eru afar mismunandi og til dæmis birtist í dag könnun í Financial Times þar sem Íhaldsflokkurinn var með 5% forskot á Verkamannaflokkinn. Eitt er víst, fylgi Blairs, sem nú berst fyrir forsætisráðherrastólnum þriðja kjörtímabilið í röð, hefur dvínað í öllum könnunum sem birst hafa. Það stefnir því í jöfnustu kosningar í Bretlandi síðan 1992.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×